sun 18. ágúst 2013 22:19
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Pepsi-mörkin 
Óli Kristjáns: Mikilvægt að allir sýni nærgætni í þessu
Leikmenn beggja liða settust niður saman
Elfar Árni Aðalsteinsson.
Elfar Árni Aðalsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson.
Mynd: Fótbolti.net - Kristján Orri Jóhannsson
Ólafur Kristjánsson, þjálfari Breiðabliks, var gestur í Pepsi-mörkunum sem nú standa yfir. Ólafur ræddi þar um atvikið óhugnalega í kvöld þegar Elfar Árni Aðalsteinsson, leikmaður Blika, missti meðvitund og var fluttur á sjúkrahús.

Elfar fékk höfuðhögg á fjórðu mínútu leiksins og var leikurinn í kjölfarið flautaður af.

„Elfar er kominn til meðvitundar og er kominn á spítala. Ég heimsótti hann áðan og hann var nokkuð eðlilegur þó hann hafi ekki litið vel út," sagði Ólafur.

„Hugur okkar allra er hjá honum. Þetta leit ekki vel út og allir voru sjokkeraðir. Það er ánægjulegt að eftir rannsóknir lítur þetta betur út en á horfðist."

Það voru hröð handtök
„Ég vil þakka sjúkraþjálfurum og öllum þeim sem komu að þessu, leikmönnum og öðrum. Það voru hröð handtök. Magnús Þórisson dómari brást mjög hratt við og stöðvaði leikinn strax. Menn voru ekkert undirbúnir undir það að þetta væri alvarlegra en gengur og gerist."

„Bæði lið ákváðu að fara inn í klefa og mönnum var brugðið. Það voru önnur atriði sem voru mikilvægari en fótboltaleikur. Þegar við fengum fréttir af líðan Elfars komum við saman og tókum ákvörðun að rétt var að stöðva það. Það var enginn í ástandi til að fara að spila um einhver stig,"

Fengum mann sem er vanur því að vinna úr svona aðstöðu
Eftir að búið var að flauta leikinn af áttu leikmenn beggja liða stund saman og fengu áfallahjálp.

„Leikmenn beggja liða settust niður og ræddu saman. Svo fengum við mann sem er vanur því að vinna úr svona aðstöðu. Það er oft gott að tala saman og ræða saman. Fótboltaleikurinn var fjarri mönnum og er það enn," sagði Ólafur.

„Það er mikilvægt að allir, bæði fjölmiðlar og aðrir, sýni nærgætni í þessu. Þetta snýst ekkert um að vera fyrstur með fréttirnar. Maður veit aldrei hvenær svona getur komið fyrir,"

Sjá einnig:
Leikur Breiðabliks og KR flautaður af eftir óhugnalegt atvik
Fréttatilkynning: Líðan Elfars eftir atvikum góð
Athugasemdir
banner
banner