Arsenal hélt hreinu annan leikinn í röð í ensku úrvalsdeildinni er liðið vann Burnley 1-0 í dag en Mikel Arteta, stjóri félagsins, var ánægður með baráttuna og hefði viljað sjá fleiri mörk frá sínu liði.
Lærisveinar Arteta töpuðu fyrstu þremur leikjum tímabilsins en hafa komið með mikinn kraft inn í september.
Liðið vann Norwich 1-0 í síðustu umferð og fóru svo á erfiðan útivöll Burnley og unnu þar með sömu markatölur en Martin Ödegaard gerði markið.
„Þetta var baráttusigur á mjög erfiðum velli. Þú þarft að vera klár í bardaga," sagði Arteta.
„Við áttum nokkra mjög góða kafla í fyrri hálfleik þar sem við stjórnuðum leiknum og hefðum getað skorað fleiri mörk. Í síðari hálfleik gáfum við boltann frá okkur oft á frekar auðveldan hátt."
„Við erum með leikmenn sem eru ekki komnir með nægan styrk til að spila svona leiki en þeir gerðu sitt besta og við náðum í sigurinn. Ég er stoltur af varnarleiknum þeirra og mjög ánægður með sigurinn."
„Tveir sigrar í röð og haldið hreinu tvisvar. Við höldum áfram en við þurfum að halda áfram að saxa á forskotið."
Á 69. mínútu var dæmt vítaspyrna á Aaron Ramsdale eftir að Ben White gerði mistök í vörninni. Matej Vydra slapp í gegn og féll í teignum en þegar VAR skoðaði atvikið þá sást að Ramsdale náði fyrst til boltans áður en Vydra fór í jörðina.
„Aðstoðardómarinn sagði strax að þetta væri ekki víti. Auðvitað þurftu þeir að draga dóminn til baka," sagði hann í lokin.
Athugasemdir