banner
   þri 19. janúar 2021 08:30
Brynjar Ingi Erluson
Carragher hefur áhyggjur af Firmino
Jamie Carragher hefur miklar áhyggjur af Roberto Firmino
Jamie Carragher hefur miklar áhyggjur af Roberto Firmino
Mynd: Getty Images
Jamie Carragher, fyrrum leikmaður Liverpool og sparkspekingur á Sky Sports, hefur áhyggjur af brasilíska sóknarmanninum Roberto Firmino.

Firmino hefur aðeins skorað fimm mörk og lagt upp þrjú i 26 leikjum með Liverpool í öllum keppnum á þessu tímabili.

Hann fékk fjölmörg færi gegn Manchester United í markalausa jafnteflinu á Anfield um helgina og virðist ekki vera upp á sitt besta þessa stundina.

Liverpool hefur ekki skorað í síðustu þremur deildarleikjum og segir hann frammistöðu FIrmino mikið áhyggjuefni.

„Ég er viss um að Mane og Salah fari að skora mörk á næstunni en ég hef miklar áhyggjur af Firmino," sagði Carragher.

„Hann hefur aldrei verið þessi hreinræktaði markaskorari fyrir liðið. Hinir tveir eru með þá ábyrgð en hann er þarna til að hjálpa hinum."

„Þegar þeir eru ekki að skora þá þarf hann að vera meira ógnandi fram á við. Hann fékk nokkur færi gegn United en tókst aldrei að hitta boltann nægilega vel. Það að koma öðrum leikmönnum inn í leikinn hefur ekki gengið upp og sömu sögu má segja af því að pressa og vinna boltann. Ég er ekki bara að tala um þetta tímabil heldur líka á síðasta tímabili þegar Liverpool vann deildina."

„Ég hafði áhyggjur af þessu þá og hugsaði um það hvort hann gæti lagað þetta. Ég hef mestar áhyggjur af honum og ef það er einhver sem gæti misst sæti sitt þá er það líklega hann því það mun gerast fyrr eða síðar að einn af þeim dettur út."

Carragher er þeirrar skoðunar að á þessum aldri eiga framherjar það til að missa taktinn.

„Ég hef áhyggjur af honum. Ég veit ekki hvort það er formið eða þessi hæga hnignun sem kemur með aldrinum, sem er reyndar mjög eðlilegt fyrir framherja sem eru á þessum aldri því að líftími þeirra á vellinum er ekki jafn langur og hjá leikmönnum í öðrum stöðum," sagði hann í lokin.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner