Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 19. febrúar 2021 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Upplifir drauminn um Svíþjóð - „Get ekki lýst þakklætinu með orðum"
Þetta er allavega klárlega stærsta sviðið sem ég hef komist á
Þetta er allavega klárlega stærsta sviðið sem ég hef komist á
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ég á þeim svo mikið að þakka, þau hjá FH eiga risastóran þátt í því að ég sé að fara í atvinnumennsku.
Ég á þeim svo mikið að þakka, þau hjá FH eiga risastóran þátt í því að ég sé að fara í atvinnumennsku.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ég er fáránlega spennt, ég get eiginlega ekki beðið eftir því að fara.
Ég er fáránlega spennt, ég get eiginlega ekki beðið eftir því að fara.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ég fékk aukaæfingar og félagið gerði allt sem það gat til að hjálpa mér að verða betri og var klárt í að styðja mig ef tilboð kæmi að utan.
Ég fékk aukaæfingar og félagið gerði allt sem það gat til að hjálpa mér að verða betri og var klárt í að styðja mig ef tilboð kæmi að utan.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Þetta kemur mjög óvænt upp og frá því í gærkvöldi hefur þetta verið algjör rússíbani.
Þetta kemur mjög óvænt upp og frá því í gærkvöldi hefur þetta verið algjör rússíbani.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andrea Mist Pálsdóttir gekk í dag í raðir Vaxsjö í sænsku Allsvenskan. Hún kemur til félagsins frá FH en hún hafði þó á dögunum verið lánuð úr Hafnarfirði til Breiðabliks.

Andrea er 22 ára miðjumaður sem er uppalin hjá Þór og hefur lengstum leikið með Þór/KA. Fyrir síðasta tímabil hélt hún til Ítalíu en eftir stutta dvöl gekk hún í raðir Fimleikafélagsins. Fótbolti.net hafði samband við Andreu í kvöld og ræddi við hana um skiptin.

„Ég segi bara allt ljómandi í kvöld," sagði Andrea þegar fréttaritari hafði samband.

Förum beint í stóra málið, hvernig var aðdragandinn að þessum skiptum?

„Þetta kemur mjög óvænt upp og frá því í gærkvöldi hefur þetta verið algjör rússíbani. Ég var búin að liggja yfir nokkrum liðum í nóvember/desember og vildi fara út. Á þeim tíma var ekki tilboð sem heillaði mig nægilega mikið til að stökkva á. Þá ákvað ég eftir samtal við Steina að fara í Blika, eins og ég sagði frá í Heimavellinum."

„Svo er ég búin að vera í Blikum í þrjár eða fjórar vikur þegar fyrir rúmri viku ég fæ þetta óvænta tilboð sem ég gat ekki litið framhjá. Með stuðningi bæði frá FH og Breiðabliki ákváðum við að láta þetta dæmi ganga upp þar sem þetta er tækifæri sem býðst ekki á hverjum degi. Það er búinn að vera draumur í lengri tíma að spila í efstu deild í Svíþjóð."


Hvernig kemur þitt nafn upp hjá Vaxsjö fyrir rúmri viku síðan?

„Ég er með umboðsmann og svo á ég vini úti í Svíþjóð sem eru vel tengdir fótboltanum. Þjálfarinn hjá félaginu hafði samband við umboðsmanninn og spurðist fyrir um mig. Umboðsmaðurinn sagði við þjálfarann að ég væri komin í Blika en sendi mér að það væri áhugi á mér úti. Hann spurði hvort ég væri hörð á því að vera á Íslandi í sumar eða hvort ég vildi skoða þetta. Ég var ekki lengi að velta þessu fyrir mér og því fór þetta mjög fljótt í ferli."

Draumurinn að spila í sænsku deildinni, var draumurinn frekar að spila þar heldur en í öðrum stórum deildum? Tengist draumurinn því að hafa fylgst með Íslendingum í deildinni?

„Bara svona bæði og, frá því að ég var lítil þá hef ég alltaf sagt við mömmu og pabba að Svíþjóð er land sem hefur heillað mig rosalega mikið. Að horfa á allar þessar íslensku stelpur blómstra þarna úti og líða mjög vel í þessu umhverfi heillaði klárlega. Með deildina alltaf á uppleið þá varð draumurinn alltaf meiri að fara til Svíþjóðar."

„Auðvitað tengist það íslensku stelpunum eitthvað líka en það er eitthvað við Svíþjóð sem hefur alltaf heillað. Deildin er að þróast mjög hratt í að vera ein af bestu deildum í heimi."


Hvað gerist í gærkvöldi sem verður upphafið af þessum rússíbana?

„Ég var búin að fá drög að samningi áður en í gær kláraðist ferlið milli Vaxsjö, FH og Breiðabliks. Það tók sinn tíma og var því ekkert orðið 100% klárt þó ég væri með þessi drög fyrir framan mig. FH stóð sig til fyrirmyndar og studdi mig alla leið í þessu. Skilaboðin frá FH var að félagið vildi gera hvað sem það gat til að ég gæti upplifað minn draum."

„Eftir nokkra daga viðræður milli félaganna þá komust félögin þrjú að samkomulagi og ég fékk samninginn sendan í gærkvöldi með undirskrift frá félögunum, klukkan hálf tólf og ég skrifaði þá undir. Svo í dag var allt staðfest á milli liðanna og félagaskiptin hjá KSÍ, þetta gerðist allt mjög hratt á síðasta sólarhring,"
sagði Andrea og það mátti greinilega heyra að hún var mjög spennt og glöð með tíðindin. Til að fá það þó í hennar orðum fékk hún klisjuspurninguna góðu."

Hvernig er tilfinningin núna?

„Ég er fáránlega spennt, ég get eiginlega ekki beðið eftir því að fara. Það í bland við stress að þurfa fara frá fjölskyldu, kærastanum og allt þetta. Ég á frábært bakland, þau styðja mig alla leið og munu gera hvað sem er svo ég geti uppfyllt mína draum. Það er ég mjög þakklát fyrir."

Hvenær ferðu út? Þarftu að fara í einhverja sóttkví við komu til Svíþjóðar?

„Það er ekki alveg frágengið en stefnan er að fara út um næstu helgi, þarf að fara í covid-test og svona fyrst. Eins og ég skil nýjustu reglur þá þarf ég ekki að fara í sóttkví þegar ég kem út en við komu þarf ég að fara í test á flugvellinum. Ég reikna með fimm daga sóttkví en Svíþjóð hefur svo sem verið að fara sínar eigin leiðir í þessu. Ég er samt eiginlega viss um að ég sé með mótefni eftir veruna á Ítalíu í fyrra, ég mun fara bæði í mótefnamælingu og covid-test, læt tékka á stöðunni."

Það er ekki sjálfgefið að svona gangi jafn smurt fyrir sig og raun ber vitni, hvernig hugsanir ertu með í garð Breiðabliks og kannski aðallega FH á þessum tímapunkti?

„Þetta er nefnilega alls ekki sjálfgefið og eins og ég hef sagt við stjórnirnar hjá félögunum þá gat ég ekki lýst því með orðum hvað ég væri þakklát hvernig ferlið var tæklað. Stuðningurinn sem ég fékk frá þeim, sérstaklega frá FH, þetta er örugglega besta stjórn og besta framkoma sem ég upplifað. Ég á þeim svo mikið að þakka, þau hjá FH eiga risastóran þátt í því að ég sé að fara í atvinnumennsku."

„Í sumar, sem dæmi, þá óx ég mikið sem leikmaður og það var FH að stórum hluta að þakka. Ég fékk aukaæfingar og félagið gerði allt sem það gat til að hjálpa mér að verða betri og var klárt í að styðja mig ef tilboð kæmi að utan. Ég á eiginlega ekki orð yfir það, Breiðablik líka, þetta er til fyrirmyndar. Ég mun alveg 100% fara með einhvern smá glaðning til að þakka þeim fyrir allt saman því þetta er ómetanlegt."


Hvað veistu um Vaxsjo sem félag?

„Ég veit í hreinskilni ekkert brjálæðislega mikið um félagið en er að kynna mér þetta betur og betur og hef fengið upplýsingar sendar. Þær enduðu í sjötta sæti á síðustu leiktíð í deildinni í fyrra. Þjálfarinn er með skýr markmið og vill stefna á toppbaráttu. Liðið spilaði við Rosengård nýlega og tapaðist sá leikur 1-0. Hópurinn er búinn að styrkjast frá því á síðustu leiktíð og liðið fékk t.d. Maddy frá Þór/KA núna í vetur. Markmiðið er að enda ofar en í fyrra. Mér skilst svo að bærinn sé ótrúlega fallegur, það hjálpar auðvitað alltaf að vera í góðu umhverfi."

Þú sagðir frá því að þú værir í námi við HR í Heimavellinum. Hvernig verður því háttað þegar þú ferð út?

„Ég er í íþróttafræði í HR og fer á fund á mánudaginn þar sem við ræðum hvernig við tæklum þetta. Það hjálpar aðeins hvernig þetta hefur verið í faraldrinum, við erum búin að vera í fjarnámi. Við ætlum að tækla þetta saman, verður kannski smá vesen með verklegu áfangana, við finnum út úr því saman. Ég er mjög þakklát fyrir það því ég elska þetta nám, það er algjörlega fyrir mig og ég myndi ekki vilja setja það á ís."

Þú hefur farið til Ítalíu og Austurríkis. Mín pæling er hvort þú hafir borið Vaxjö við liðin úti, Breiðablik og kannski Þór/KA. Ertu að fara í besta lið sem þú hefur spilað með á ferlinum?

„Þetta er allavega klárlega stærsta sviðið sem ég hef komist á. Varðandi samanburð við önnur lið þá hef ég svo sem ekki náð að pæla í því mikið. Ég horfi meira í þau lið sem eru í deildinni og hvað maður fær út úr því að spila við stórlið á borð við Rosengård, Kristianstad og þessi lið öll. Þau lið myndu að öllum líkindum sigra bestu liðin hér heima. Ég hef trú á að ég sé á leið í gott lið og það sé gott ár framundan," sagði Andrea að lokum.
Athugasemdir
banner
banner