Manchester United mun leggja fram 59,2 milljón punda tilboð í brasilíska miðjumanninn Casemiro í dag og er gert ráð fyrir því að Real Madrid samþykki tilboðið. Þetta kemur fram á Sky Sports og þá greinir Fabrizio Romano einnig frá tíðindunum.
Þessi þrítugi miðjumaður hefur fimm sinnum unnið Meistaradeild Evrópu með Real Madrid en hann kom til félagsins frá Sao Paulo fyrir níu árum.
Hann myndaði magnað miðjumannatríó með þeim Toni Kroos og Luka Modric en Brasilíumaðurinn er ekki lengur talinn ósnertanlegur af spænska félaginu.
Félagið fékk Eduardo Camavinga frá Rennes á síðasta ári og þá kom Aurélien Tchouaméni frá Mónakó í sumar.
Sky heldur því fram að Man Utd ætli sér að leggja fram 59,2 milljón punda tilboð í dag og mun Real Madrid samþykkja tilboðið en hann gerir fjögurra og hálfs árs samning við United. Casemiro er sagður hafa samþykkt það að ganga í raðir félagsins.
Casemiro mun þéna 300 þúsund pund í vikulaun hjá enska félaginu en það er talið ólíklegt að hann verði með gegn Liverpool á mánudag.
Brasilíumaðurinn á eftir að fá atvinnuleyfi á Englandi og ekki víst að það verði klárt í tæka tíð fyrir leikinn.
Athugasemdir