
Danny Welbeck er búinn að framlengja samning sinn við Brighton til 2024 og er þetta önnur framlengingin sem hann fær á samningi sínum í sumar.
Brighton nýtti sér ákvæði í samningi Welbeck til að framlengja samning hans um eitt ár þegar hann rann út í sumar. Núna hefur félagið ákveðið að bæta auka ári við samninginn í samráði við sóknarmanninn.
Welbeck hefur skorað 12 mörk í 53 leikjum fyrir Brighton en það eru ekki mörkin sem skipta Graham Potter, knattspyrnustjóra, mestu máli.
„Danny hefur verið frábær frá fyrsta degi. Hann var snöggur að finna sig í hópnum og hefur reynst sannur leiðtogi. Hann notar reynsluna sína til að hjálpa öðrum leikmönnum og er frábær fyrirmynd," sagði Potter um Welbeck sem er 31 árs gamall og hefur spilað yfir 100 leiki fyrir bæði Arsenal og Manchester United.
„Hann er gríðarlega mikilvægur innan sem utan vallar og ég hlakka mikið til að starfa með Danny næstu tímabil."
I am now going to tweet here we go 😂 @FabrizioRomano https://t.co/gUPGgYTdVp pic.twitter.com/b0js8LzrW8
— Danny Welbeck (@DannyWelbeck) August 19, 2022