Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 19. nóvember 2020 14:31
Elvar Geir Magnússon
Willum um fjárhagsstöðu KR: Öruggt að KR mun sækja á fyrsta sætið
Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Willum Þór Þórsson, alþingismaður og fyrrum þjálfari KR, segist sannfærður um að KR muni stefna á Íslandsmeistaratitilinn á næsta ári. Fjárhagsstaða KR hefur verið talsvert í umræðunni en liðið missti af Evrópusæti í sumar.

Willum er viðmælandi hlaðvarpsþáttarins Arnarhóll og ræðir þar um fótbolta og fjármál.

„Ég held að það sé tvennt sem er að hrjá KR-inga. Það þrengir að vegna Covid eins og hjá öllum í íþróttahreyfingunni. Svo er það fyrir topplið eins og KR, það að komast ekki í Evrópukeppni þýðir að þú ferð á mis við tugi milljóna. Það er skellur. Þá þarftu að treysta á stuðning en staðan er þannig að það er ekki í sömu djúpu vasa að sækja í þessu Covid-ástandi til að bregðast við því," segir Willum.

„Þá þarf kannski að endurstilla hópinn og að fækka tekjuhærri leikmönnum, mönnum sem þú ert kannski öruggur með að skili ákveðnum hlutum. Mér sýnist KR-ingar vera á þeirri vegferð án þess að það sjái of mikið á hópnum."

Finnur Orri Margeirsson og Pablo Punyed hafa yfirgefið KR en sá síðarnefndi sagði í viðtali að KR þyrfti að taka erfiðar ákvarðanir fjárhagslega og samkomulag um nýjan samning hefði ekki náðst.

„Ég er alveg öruggur með það að KR verður með lið sem mun sækja á fyrsta sætið á næsta ári. Það er það eina sem ég veit. Með Rúnar Kristins, Bjarna og allt þetta teymi þá verður það þannig. Menn hugsa ekki öðruvísi. Hjá öllum félögum þurfa menn að taka erfiðar ákvarðanir," segir Willum.

Fyrst íslenska landsliðið komst ekki á EM þá missa íslensk félagslið einnig af háum fjármunum.

„Kannski hefðu það verið 20 milljónir fyrir félag eins og KR, ef sá peningur (1,5 milljarður) hefði skilast til KSÍ og þeir dreyft peninginum áfram á til félagana eins og þeir gerðu um árið. En við komumst út úr þessu, félögin og íslenskur fótbolti."

Smelltu hér til að hlusta á Willum í Arnarhóli
Athugasemdir
banner
banner