Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 20. júní 2021 17:46
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Svíþjóð: Sveindís á skotskónum í sigri Kristianstad
Sveindís í landsleik.
Sveindís í landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveindís Jane Jónsdóttir er byrjuð að skora aftur í sænsku úrvalsdeildinni með Kristianstad.

Sveindís kom Kristianstad yfir gegn Örebro eftir fimm mínútna leik. Markvörður Örebro var í alls konar veseni og Sveindís nýtti sér það. Cecilía Rán Rúnarsdóttir sat á bekknum hjá Örebro og skrítið ef hún verður ekki komin í markið í næsta leik.

Þegar um 87 mínútur voru liðnar af leiknum var hann stöðvaður. Leikmenn hlupu inn í klefa út af þrumum og eldingum í kringum völlinn.

„Þrumur og eldingar í Örebro vs Kristianstad. Leikur stöðvaður og leikmenn spretta inn í hús af vellinum. Þetta hef ég ekki séð áður. Það eru 87 mínútur á klukkunni. Hvað gerist núna?" skrifaði Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, þjálfari hjá Kristianstad, á Twitter.

Liðin sneru aftur út á völlinn þegar það var öruggt og kláruðu leikinn. Kristianstad bætti við marki undir lokin og lokatölur 0-2.

Sveindís Jane, sem er 20 ára, er núna búin að skora þrjú mörk í sex leikjum í sænsku úrvalsdeildinni. Hún er tiltölulega nýkomin aftur úr meiðslum. Sif Atladóttir byrjaði einnig fyrir Kristianstad og spilaði 56 mínútur. Berglind Rós Ágústsdóttir spilaði allan leikinn fyrir Örebro en Cecilía var sem fyrr segir á bekknum.

Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad sem er í fimmta sæti með 13 stig. Örebro er með tíu stig í sjöunda sæti.
Athugasemdir
banner
banner
banner