Ítalska félagið Como hefur lagt fram formlegt tilboð í argentínska leikmanninn Maximo Perrone, leikmann Manchester City á Englandi.
Perrone er 21 árs gamall miðjumaður sem kom til Man City frá Velez á síðasta ári.
Þá gerði hann fimm og hálfs árs samning við enska félagið en hann lék aðeins einn deildarleik með liðinu.
Á síðustu leiktíð eyddi hann tímabilinu á láni hjá Las Palmas á Spáni, en það er ekki pláss fyrir hann í áætlunum Pep Guardiola sem stendur.
Ítalska félagið Como, sem er nýliði í Seríu A, hefur lagt fram formlegt tilboð í Perrone. Como vill fá Perrone á láni með möguleika á að gera skiptin varanleg.
Man City mun setja ákvæði í samninginn sem gefur félaginu kost á því að kaupa hann til baka og þá mun það einnig fá prósentu af endursöluvirði leikmannsins, en það veltur auðvitað allt á því ef Como ákveður að kaupa hann.
Athugasemdir



