Kevin Thelwell, yfirmaður fótboltamála hjá Everton, gaf ítarlegt viðtal við BBC sem birtist í morgun.
Þar fór hann yfir stöðu mála hjá félaginu og ræddi fyrst um þjálfarann Sean Dyche sem er að starfa við gríðarlega erfiðar aðstæður hjá Everton.
Everton er án stiga eftir fjórar fyrstu umferðirnar á nýju úrvalsdeildartímabili sem er versta byrjun félagsins á deildartímabili síðustu 66 ár.
„Við Sean störfum mjög náið saman. Það er einn meter á milli skrifstofanna okkar þannig að við erum í sífelldum samskiptum. Við erum að gera allt í okkar valdi til að bæta stöðu Everton jafnt innan sem utan vallar," sagði Thelwell, en þjálfarastarf Dyche er ekki talið vera í hættu þrátt fyrir herfilega byrjun á tímabilinu.
„Við erum að gera okkar allra besta til að rétta úr kútnum en aðstæður eru mjög erfiðar. Sean er að gera sitt besta við gríðarlega erfiðar aðstæður. Það eru enn fjárhagsmál og eigendamál sem við þurfum að leysa sem gera þjálfarastarfið erfiðara."
John Textor er að reyna að kaupa Everton eftir misheppnaðar tilraunir 777 Partners og Friedkin Group fyrr á árinu.
Athugasemdir