Real gæti gert janúartilboð í Trent - O'Neil verður ekki rekinn - Liverpool vill Eze
banner
   fös 20. september 2024 18:00
Ívan Guðjón Baldursson
Glasner: Fólk var með alltof miklar væntingar
Mynd: EPA
Oliver Glasner tók við Crystal Palace í febrúar og bjargaði liðinu frá falli. Palace gerði frábæra hluti undir stjórn Glasner og endaði í tíunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Á lokakaflanum vann Palace sex af síðustu sjö deildarleikjum tímabilsins og skoraði liðið 21 mark í þeim leikjum, eða þrjú mörk á leik að meðaltali.

Byrjunin á nýju deildartímabili hefur þó ekki verið neitt sérstök þar sem Palace er aðeins komið með tvö stig eftir fjórar fyrstu umferðirnar.

„Við gerðum frábæra hluti í síðustu sjö leikjunum á síðustu leiktíð, en hinir 31 leikirnir sem komu á undan voru ekki frábærir. Það hefði verið óeðlilegt að halda þessari sigurgöngu áfram á nýrri leiktíð, við verðum að vera raunsæir," sagði Glasner á fréttamannafundi í dag, en Palace tekur á móti Manchester United í fimmtu umferð úrvalsdeildartímabilsins á morgun.

„Fólk var með alltof miklar væntingar fyrir nýrri leiktíð. Við vorum fimm stigum frá falli eftir 31 umferð á síðustu leiktíð, það er ekki raunhæft að búast við að berjast um Evrópusæti strax á næstu leiktíð eftir það.

„Við settum stigamet í sögu félagsins með að ná í 49 stig. Það hefði ekki verið neitt vit í að setja stefnuna fyrir nýtt tímabil á 78 stig og meistaradeildarsæti."


Palace seldi lykilmennina Michael Olise og Joachim Andersen frá sér í sumar, auk þess að senda Jordan Ayew og Odsonne Édouard í raðir nýliða Leicester City.

Félagið keypti Eddie Nketiah, Maxence Lacroix, Chadi Riad og Ismaila Sarr til að fylla í skörðin en nýju mennirnir eiga enn eftir að finna réttan takt hjá Palace.
Athugasemdir
banner
banner
banner