
Tvö ár í röð hefur sama sviðsmyndin litið dagsins ljós að leikmenn virðast taka á sig viljandi rautt spjald í fyrri leik undanúrslita umspils Lengjudeildarinnar, til þess eins að missa ekki af úrslitaleiknum. Það er vegna þess að leikmenn bera spjöldin enn sem þeir hafa safnað sér um tímabilið og ef leikmaður fær 7 gul spjöld, endar sá sami í eins leiks banni.
Fyrri leikur umspilsins var spilaður síðastliðinn miðvikudag og seinni leikurinn er spilaður á morgun, sunnudag. Aganefndin sem úrskurðar um leikbönn vegna uppsafnaðra spjalda hittist hins vegar á þriðjudögum og því myndi gult spjald sem þú færð í fyrri leiknum ekki taka gildi fyrr en eftir seinni leikinn.
Elmar Kári Enesson Cogic fékk rautt spjald í fyrra þegar Afturelding spilaði fyrri leik sinn gegn Fjölni í umspilinu, að því virðist út af þessu. Aftur virðist þetta gerast í ár þegar Oumar Diouck leikmaður Njarðvíkur fær sitt seinna gula undir lok leiks í fyrri leik þeirra í umspilinu gegn Keflavík.
Reglugerðin var rædd í Leiðin úr Lengjunni þar sem undirritaður lagði fram nýja tillögu af því hvernig væri hægt að komast hjá þessu.
„Um leið og 22 leikjum er lokið, þá er mótið búið og það byrjar nýtt mót sem heitir umspil. Þá eru allir með núll spjöld. Ef við ætlum að hafa einhverja reglu um bann í umspilinu, þá er hægt að tala um tvö gul í undanúrslitunum, og þá ertu í banni í úrslitunum. Ef þú ert á þrem spjöldum, eða sex spjöldum eftir 21. umferð, og færð þitt sjöunda eða fjórða gula spjald í 22. umferð. Þá fer það bann bara yfir á fyrsta leik á næsta tímabili," sagði Haraldur.
Stefán Marteinn Ólafsson bætti við, „Þetta eru bara þrír leikir þetta umspil, og það er algjör óþarfi að vera eyðileggja það með leikbönnum út af spjöldum sem komu í fyrstu umferðunum."
Einnig mætti skoða það hjá KSÍ hvort þurfi að funda einu sinni í viku til þess að úrskurða leikmenn í leikbönn sem ættu að vera sjálfvirk út frá því hversu mörg spjöld leikmenn hafa fengið.