Vestri tekur á móti ÍA á morgun í mikilvægum leik í neðri hluta deildarinnar. Fimm stig skilja liðin að en ÍA situr í fallsæti, næst neðsta sæti deildarinnar. Vestri er án sigurs í fjórum leikjum en ÍA hefur unnið tvo leiki í röð.
Fótbolti.net ræddi við Eið Aron Sigurbjörnsson sem er lykilmaður í liði Vestra. Leikurinn á morgun hefst klukkan 16:05 og fer fram á Kerecis-vellinum á Ísafirði.
Fótbolti.net ræddi við Eið Aron Sigurbjörnsson sem er lykilmaður í liði Vestra. Leikurinn á morgun hefst klukkan 16:05 og fer fram á Kerecis-vellinum á Ísafirði.
„Leikurinn leggst bara hrikalega vel í mig, vont tap í síðasta leik (gegn KA) og það hefur sést i þessari æfingaviku að hópurinn er staðráðinn í að svara fyrir þá frammistöðu," segir Eiður Aron.
Hann segir að Vestramenn þurfi að fara aftur í sín gildi til að vinna leikinn. Spurður hvort eitthvað þurfi að breytast svo Vestri landi sigri segir Eiður eftirfarandi:
„Það þarf svo sem ekkert að breytast hjá okkur, við vitum hvað við erum og fyrir hvað við stöndum og við erum bara klárir í þetta verkefni."
Það eru fimm leikir eftir í neðri hluta deildarinnar.
„Það er bara skemmtilegt verkefni framundan og eins og ég segi þá erum við bara klárir í það og erum spenntir fyrir morgundeginum."
Er einhver auka hvatning að þetta sé gegn ÍA sem vann Vestra á Ísafirði fyrr í sumar?
„Nei, ég myndi svo sem ekki segja að það væri extra hvatning, sama hvaða lið við spilum við þá erum við bara klárir í þennan leik."
Hversu mikilvægt er að fá öflugan stuðning á morgun?
„Það skiptir okkur gríðarlegu máli að fá fólkið okkar á völlinn, þetta fólk hérna á Ísafirði er alveg ótrúlegt og það sáu það allir í bikarúrslitaleiknum hversu mikilvægt þetta er. Mín skilaboð til stuðningsmanna eru bara þau að ég hvet ykkur öll til þess að mæta á Kerecis-völlinn núna á laugardaginn og vera okkar 12. maður, þið hafið verið frábær í ár og við þurfum á ykkur að halda fyrir þetta verkefni," segir varnarmaðurinn.
Athugasemdir