
Allison Grace Lowrey er búin að framlengja samning sinn við ÍBV út næsta keppnistímabil eftir að hafa komið inn í íslenska boltann sem stormsveipur.
Allison er bráðefnilegur sóknarmaður sem er á sínu fyrsta tímabili á Íslandi. Hún er búin að skora 30 mörk í 22 keppnisleikjum í sumar, auk þess að leggja mikið upp.
Hún hefur verið gjörsamlega óstöðvandi og verður virkilega áhugavert að fylgjast með henni reyna fyrir sér í Bestu deildinni með Eyjakonum á næsta ári.
Allison kom til ÍBV úr röðum Texas A&M þar sem hún lék í bandaríska háskólaboltanum. Margar öflugar fótboltakonur úr háskólaboltanum kjósa að reyna fyrir sér á Íslandi, sem virðist vera mjög gott fyrsta skref til að komast í stærri lið í Evrópu.
Allison Clark og Olga Sevcova sem eru lykilleikmenn hjá ÍBV eru einnig búnar að framlengja samninga sína.
19.09.2025 18:10
Lið ársins og önnur verðlaun í Lengjudeild kvenna
Athugasemdir