Amorim með áhugaverða klásúlu - Man City sýnir Mainoo áhuga - Juve vill Silva - Liverpool gæti gert tilboð í Araujo
   fim 18. september 2025 09:59
Elvar Geir Magnússon
ristjóri Fótbolta.net
Aftur lagt upp með skipulögðum hætti að leikmaður fái rautt
Lengjudeildin
Diouck fékk viljandi rautt spjald.
Diouck fékk viljandi rautt spjald.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Brosandi eftir að hafa fengið rauða spjaldið.
Brosandi eftir að hafa fengið rauða spjaldið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það á augljóslega ekki að vera hluti af fótbolta að lið og leikmenn telji að þau hagnist á því að brjóta af sér og fái rauð spjöld. En þannig staða getur svo sannarlega komið upp í umspili Lengjudeildarinnar og hefur núna gerst tvö ár í röð.

Oumar Diouck, leikmaður Njarðvíkur, fékk gult spjald gegn Keflavík í gær sem þýddi að hann hefði þurft að taka út leikbann í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli kæmist hans lið þangað. En með því að fá viljandi rautt spjald seinna í leiknum fer hann sjálfkrafa í bann í seinni undanúrslitaleiknum en fær að spila úrslitaleikinn.

Nákvæmlega sama staða kom upp í fyrra þegar Elmar Cogic fékk viljandi rautt gegn Fjölni til að vera löglegur í úrslitaleiknum. Þeir fóru reyndar ekki sömu leiðina að seinna spjaldinu, Elmar braut á leikmanni Fjölnis en Diouck sparkað boltanum í burtu og gekk brosandi af velli eftir rauða spjaldið.

Í báðum tilfellum voru það ákvarðanir þjálfarans að leikmaðurinn myndi næla sér í rautt spjald og ég skil þjálfarana fullkomlega. Það er gapandi hola í kerfinu sem væri skrítið að nýta sér ekki.

Hinn frægi vikulegi fundur
Enn og aftur komum við að hinum umtalaða vikulega fundi aganefndar sem hittist bara á þriðjudögum. Hið löngu úrelta fyrirbæri sem virðist ótrúlega erfitt að koma út úr íslenska fótboltakerfinu. Leikmenn fara ekki í sjálfkrafa bann vegna uppsafnaðra áminninga heldur þarf aganefndin að hittast einu sinni í viku og stimpla einhverja pappíra.

Ef lið á tvo leiki í viku getur leikmaður verið búinn að safna spjöldum í fyrri leiknum til að fara í bann en samt spilað seinni leikinn því aganefndin vinnur bara á þriðjudögum.

Umspil Lengjudeildarinnar er keppni sem er ekki lík annarri hér á landi og strax yrði það ákveðin lausn að hafa aukafund aganefndar milli undanúrslitaleikjanna. Þó best væri náttúrulega að menn færu bara beint sjálfkrafa í bann eftir að hafa safnað gulum spjöldum!

Á Diouck að fá tveggja leikja bann?
Hefði Elmar í fyrra og ætti Diouck núna að fá lengra bann fyrir að leika þennan leik til að hagræða því í hvaða leik bannið er afplánað?

Í eðlilegum kringumstæðum ætti það að vera staðan. En mitt mat er að í þessu tilfelli séu bara kringumstæðurnar alls ekki eðlilegar. Það er öskrandi galli í kerfinu og agareglum tengdum umspilinu og það er raunverulega vandamálið sem á að horfa í.

Reglunum breytt en þó ekki nóg
Skiljanlega eiga að vera einhverjar afleiðingar ef menn safna spjöldum og ég skil KSÍ að vilja ekki fara þá leið að gefa öllum bara frípassa í umspilinu eins og einhverjir hafa kallað eftir. Það er eðlilegt að menn þurfi að taka afleiðingum þess að safna spjöldum. Þegar kemur að svona keppni þarf þó að aðlaga reglurnar.

Reglunum var breytt eftir Elmars-uppákomuna í fyrra. Þeir leikmenn sem koma inn í undanúrslitin á þremur gulum spjöldum eða færri (fjögur gul þarf til að fá bann) fá eitt gult spjald dregið frá spjaldafjölda sínum á tímabilinu. Þannig ef leikmaður er með þrjú gul spjöld eftir 22 leiki þyrfti leikmaðurinn að fá gult spjald í báðum undanúrslitaleikjunum til að missa af úrslitaleiknum vegna leikbanns.

Leikmaður á sex gulum spjöldum (sjö gul þarf til að fá aftur bann) eftir 22 leiki er hinsvegar áfram einu gulu spjaldi frá leikbanni. Þannig var raunin með Oumar Diouck í gær, hann kom inn í leikinn með sex gul á bakinu.

Njarðvík tekur meiri áhættu en Afturelding
Njarðvík vann fyrri leikinn í gær 2-1. Líklegt er að ef staðan hefði verið 2-2 hefði Diouck ekki vísvitandi fengið rautt því Njarðvík hefði talið sig hafa meiri þörf á honum í seinni leiknum. Diouck er einn besti leikmaður Lengjudeildarinnar.

Njarðvík 'gamblar' á að geta klárað Keflavík á sínum heimavelli eftir 2-1 forystu úr fyrri leiknum og þannig nýtt mikilvæga krafta hans í úrslitaleiknum um sæti í Bestu deildinni.

Afturelding vann fyrri leikinn gegn Fjölni 3-1 í fyrra, gegn andstæðingi sem var ekki eins öflugur og Keflavík í ár að mínu mati. Því má segja að Njarðvík sé að taka meiri áhættu en Afturelding með því að senda Diouck 'í frí' í seinni leiknum gegn Keflavík.
Athugasemdir
banner
banner