Tindastóll fær granna sína í Kormáki/Hvöt í heimsókn í undanúrslitum Fótbolti.net-bikarsins í kvöld. Sigurliðið tryggir sér farseðil á Laugardalsvöll þar sem þeir mæta annaðhvort Gróttu eða Víkingi Ó.
Bæði lið enduðu í fjórða sæti á tímabilinu, Tindastóll í 3. deild en Kormákur/Hvöt í 2. deild. Tindastóll hefur sýnt fram á að þeir geta sigrað lið í 2. deild, en þeir hafa farið með sigur af hólmi gegn bæði Þrótti Vogum og KFG í Fótbolti.net-bikarnum á tímabilinu.
Fótbolti.net ræddi við Sverri Hrafn Friðriksson, fyrirliða Tindastóls, fyrir grannaslaginn.
„Þessi leikur hefur mikla þýðingu og það er geggjað að fá þennan leik í undanúrslitum. Alvöru grannaslagur. Það er vissulega deild á milli liðanna en við höfum sýnt hingað til í þessari keppni að það skiptir litlu máli. Við förum í alla leiki til þess að vinna þá, það er alveg klárt mál.“
Flautað verður til leiks á Sauðárkróksvelli klukkan 19:15 en Sverrir býst við mikilli stemningu á Króknum í kvöld.
„Ég býst við hörkuleik þar sem ekkert verður gefið eftir. Það verður örugglega pökkuð stúka og alvöru stemning. Það verður einhver kýtingur á milli manna, það er held ég óumflýjanlegt. Við þurfum að eiga mjög góðan leik og spila okkar besta bolta, þá förum við alla leið á Laugardalsvöll.“
Athugasemdir