Arne Slot, stjóri Liverpool, fagnaði enn einum sigrinum á tímabilinu er það lagði Atlético Madríd að velli, 3-2, í dramatískum leik í 1. umferð Meistaradeildar Evrópu á Anfield í kvöld.
Liverpool hefur nú unnið alla fimm leiki sína í deild- og Meistaradeild og allir hafa komið eftir að hafa skorað í lokin.
Virgil van Dijk var hetjan að þessu sinni, en Slot segist að mestu ánægður með spilamennskuna.
„Ef þú vilt vinna lið eins og Atlético, sem hefur að geyma ótrúlegt hugarfar, þá verður þú að vinna þá með þeirra vopni og það er hugarfarið. Við sýndum það aftur í dag að við getum gert það.“
„Við hefðum samt átt að gera þetta þægilegra fyrir okkur. Staðan var 2-0 og við fengum færin til að gera þriðja markið. Síðan þegar staðan er 2-1 þá skjótum við í stöng og vorum nokkrum sinnum nálægt því, en allt getur gerst þegar það er bara eins marks munur og það er nákvæmlega það sem gerðist. Örlítil stefnubreyting varð til þess að seinni boltinn fór í netið, en hugarfarið kom okkur aftur alla leið. Við vorum að pressa þá þegar tíu mínútur voru eftir og héldum bara áfram að keyra á þetta. Síðan kom sigurmarkið eftir fast leikatriði,“ sagði Slot.
Alexander Isak spilaði sinn fyrsta leik í Liverpool-treyjunni, en það kom mörgum á óvart að hann hafi verið í byrjunarliðinu og spilað tæpar 60 mínútur. Slot segist hafa verið ánægður með frumraun Isak.
„Já, sérstaklega þar sem hann virkaði í fínu formi á þessum 60 mínútum sem hann spilaði. Það var ekki eins og hann hafi verið þreyttur eftir tíu mínútur. Hann mun geta spilað mjög vel á þessu gæðastigi eftir eina eða tvær vikur á æfingasvæðinu.“
„Hann getur spilað fótbolta og það maður nýtur þess að horfa á hann og það kemur ekkert á óvart. Hann var í mun betra formi en ég hélt, en stuðningsmenn mega ekki gera sér of miklar vonir. Við spilum þrisvar í viku og það er aðeins of mikið fyrir hann á þessum tímapunkti.“
„Við erum með tvær frábærar 'níur' og munum nota báðar í gegnum feril þeirra hjá félaginu,“ sagði Slot.
Athugasemdir