FH mætir Stjörnunni í fyrstu umferð efri hluta Bestu deildarinnar á sunnudag. Stjarnan er heitasta lið deildarinnar sem stendur og tveimur stigum frá toppnum. FH er í 5. sæti, tíu stigum frá Evrópusæti þegar fimm umferðir eru eftir af mótinu.
FH hefur einnig verið öflugt í stigasöfnun sinni að undanförnu. Fótbolti.net ræddi við Böðvar Böðvarsson, leikmann FH, í aðdraganda leiksins sem hefst klukkan 19:15 á sunnudag og fer fram á Samsungvellinum í Garðabæ.
FH hefur einnig verið öflugt í stigasöfnun sinni að undanförnu. Fótbolti.net ræddi við Böðvar Böðvarsson, leikmann FH, í aðdraganda leiksins sem hefst klukkan 19:15 á sunnudag og fer fram á Samsungvellinum í Garðabæ.
„Leikurinn leggst bara mjög vel í mig, Stjarnan er með gott lið og töluvert skemmtilegra að fara inn í leikina í efri hlutanum en þeim neðri. Þeir eru náttúrulega mjög vel spilandi og góðir sóknarlega þannig það er kannski eitthvað sem við þurfum helst að stoppa," segir Böddi.
Stjarnan hefur haft gott tak á FH undanfarin ár, FH vann Stjörnuna síðast 2023 og síðast á útivelli árið 2021.
„Ég persónulega hef ekki unnið þá frá því að ég kom til baka þannig gott að fá nýtt tækifæri til þess á sunnudaginn."
Böddi kom aftur til uppeldisfélagsins fyrir tímabilið 2024 eftir atvinnumennsku í Póllandi og Svíþjóð.
Hvaða markmið hefur FH fyrir síðustu fimm leikina?
„Ég hef verið hvattur af fólki innan klúbbsins að tjá mig ekki um markmiðasetningu út á við fyrir hönd FH þannig ætli ég komi ekki með leiðinlegasta svar allra tíma sem er bara einn leikur í einu. Seinustu fimm leikirnir snúast um það að geta farið í frí og geta horft í spegil, eitthvað sem var ekki hægt í fyrra."
„Já, það var mikill léttir að tryggja það að geta ekki fallið því pakkinn er mjög þéttur þarna fyrir neðan og í rauninni öll sex liðin í raunverulegum möguleika á því að falla. En að sama skapi vonbrigði að vera ekki nær toppliðunum þegar úrslitakeppnin byrjar."
Hvernig finnst þér tímabilið hjá þér og liðinu hafa verið til þessa?
„Við höfum þróast vel sem lið, byrjuðum mjög illa en hefur allt verið að koma til i seinustu leikjum. Í fyrra byrjuðum við vel og enduðum illa, núna er það öfugt þannig það er tilvalið að gera bara bæði á næsta tímabili."
„Fyrir mitt leyti var ég ekki sáttur við byrjunina hjá mér stóð mig ekki nógu vel í miðverði í fyrstu tveimur leikjunum en síðan ég færðist í bakvörðinn hef ég verið mjög sáttur með mína frammistöðu og er í raun í fyrsta skipti frá því ég man eftir mér að njóta þess að spila fótbolta."
Hefur þú upplifað þetta meira sem skyldu síðustu ár heldur en gaman að spila fótbolta?
„Já og nei, ekki beint sem skyldu heldur meira bara þörf, bæði þörf til að gera vel og ná árangri en einnig þörf út frá fjárhagslegum ástæðum verandi ómenntaður og ógeðslegur," segir Böddi á léttu nótunum.
„En svo kem ég upp í miklu pressuumhverfi hjá FH og set gífurlega pressu á sjálfan mig að komast í liðið, vinna titla og komast erlendis. Svo þegar þú ert kominn út er svo önnur pressa sem þú setur á sjálfan þig þannig að það er kannski í fyrsta skipti núna sem mér raunverulega líður vel á fótboltavellinum sjálfum," segir Böddi.
Athugasemdir