Amorim með áhugaverða klásúlu - Man City sýnir Mainoo áhuga - Juve vill Silva - Liverpool gæti gert tilboð í Araujo
   fim 18. september 2025 11:46
Kári Snorrason
Oumar Diouck á hættusvæði - Reglur FIFA kveða á um auka leik í banni
Lengjudeildin
Oumar Diouck fékk viljandi rautt spjald í gær.
Oumar Diouck fékk viljandi rautt spjald í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Svipað atvik átti sér stað í fyrra, þá í Mosfellsbæ.
Svipað atvik átti sér stað í fyrra, þá í Mosfellsbæ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þóroddur Hjaltalín segir dómara vera setta í ömurlega stöðu.
Þóroddur Hjaltalín segir dómara vera setta í ömurlega stöðu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Oumar Diouck, framherji Njarðvíkur, fékk viljandi rautt spjald í fyrri undanúrslitaleik í umspili Lengjudeildarinnar gegn Keflavík í gær. Það gerði hann til að tryggja þátttöku sína í mögulegum úrslitaleik. Í viðtali eftir leik staðfesti Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur, að seinna gula hafi borið að með viljandi hætti.

Agareglur FIFA kveða á um að leikmaður sem fær vísvitandi gult eða rautt spjald, hvort sem er til að afplána bann í næsta leik eða til að hreinsa spjaldastöðu sína, hlýtur til auka eins leiks bann.

Axel Kári Vignisson, lögfræðingur hjá aga- og úrskurðarmálum KSÍ vildi lítið gefa upp um stöðu Diouck en segir að reglur FIFA hafa verið til fyllingar og niðurstaðan liggur fyrir eftir fund Aga- og úrskurðarnefndar á þriðjudag.

„Það er almennt þannig hjá okkur að reglur FIFA eru til fyllingar. Svo er líka litið á skýrslur dómara, ástæða þess hvers vegna leikmaður var rekinn út af og því um líkt. Úrskurðir aganefndar og fleira hefur stundum verið vísað til þess að reglur FIFA hafi verið til fyllingar.“

Fordæmi utan úr heimi

Svipað atvik átti sér stað í fyrra þegar Elmar Kári Cogic, leikmaður Aftureldingar, fékk rautt spjald. Hvorki Elmar né þjálfari liðsins, Magnús Már Einarsson, viðurkenndu þá að um ásetning hefði verið að ræða, ólíkt Gunnari Heiðari, þjálfara Njarðvíkur.

Árið 2019 gerðist Sergio Ramos sekur um samskonar brot. Hann fékk viljandi gult spjald til að tímasetja leikbann rétt og viðurkenndi það í viðtali eftir leik. Við það lengdi UEFA bannið úr einum leik í tveggja leikja bann.

Dómararnir settir í erfiða stöðu

Þóroddur Hjaltalín starfsmaður dómaramála hjá KSÍ segir dómara vera setta í erfiða stöðu og horfa ekki til spjaldastöðu einstaka leikmanna.

„Þeir eru settir í ömurlega stöðu. Ég hef séð umræður í morgun um að Twana hefði átt að sjá í gegnum þetta. Málið er það, ég þekki það sjálfur frá því ég var að dæma, við höfum ekki hugmynd um spjaldastöðu leikmanna.“

„Það er líka vont, við þurfum að framfylgja lögunum. Ef leikmaður hagar sér með þeim hætti að hann á skilið að fá seinna gula þá fær hann það. Það er ekkert annað sem við getum gert en að framfylgja knattspyrnulögunum.“


Athugasemdir
banner