sun 20. nóvember 2022 13:33
Brynjar Ingi Erluson
Casillas: Cristiano enn með orkuna til að spila á hæsta stigi
Cristiano Ronaldo og Iker Casillas
Cristiano Ronaldo og Iker Casillas
Mynd: EPA
Fyrrum markvörðurinn, Iker Casillas, ætlar ekki að afskrifa Cristiano Ronaldo á heimsmeistaramótinu í Katar en hann telur hann líklegan til að taka gullskóinn.

Ronaldo er á leið á HM í fimmta sinn með Portúgölum en þetta verður hans allra síðasta.

Hann hefur unnið Evrópumótið með landsliðinu en er í leit að þeim stóra.

Casillas, fyrrum liðsfélagi Ronaldo hjá Real Madrid, var spurður að því hver myndi hreppa gullskóinn á HM í Katar, en hann vildi alls ekki afskrifa Ronaldo.

„Það er erfitt að segja. Karim Benzema var líklegastur en sjáum hvað gerist núna þegar hann er meiddur. Neymar getur mætt þarna og klárað dæmið eða Messi. Það halda allir að Cristiano hafi komið á HM til að vera túristi en fólk telur hann ekki líklegan útaf öllu sem hefur gerst hjá Manchester United,“

„Þegar fólk talar um Cris þá gleymir það hvað hann hefur afrekað. Ég meina í alvöru talað, þetta fólk getur ekki gleymt þessu því það veit alveg upp á hár hvað hann hefur gert. Ég myndi alltaf vilja hafa hann í mínu liði og hann er enn með gæðin til að spila á hæsta stigi,“
sagði Casillas.
Athugasemdir
banner
banner
banner