HK fór í úrslitaleik umspilsins í Lengjudeildinni en tapaði þar gegn Keflavík. 'Ég er mjög ánægður að vera kominn í HK og í það sem félagið vill gera.''
„Það er búið að vera rosalega mikið í gangi, týpíska 'silly season' í gangi. HK var eitt af félögunum sem hafði samband við mig og mér fannst það strax mjög áhugavert. Eftir fyrsta og annan fund fannst mér þetta vera í takt við það sem mig langaði að gera og þar sem minn metnaður liggur, það rímar við það sem HK vill gera," segir Gunnar Heiðar Þorvaldsson sem tók við HK á dögunum.
Síðustu vikur voru viðburðaríkar hjá Gunnari Heiðari. Hann segir að stefnan hafi verið að fara í efstu deild og þá var einnig áhugi erlendis frá.
Síðustu vikur voru viðburðaríkar hjá Gunnari Heiðari. Hann segir að stefnan hafi verið að fara í efstu deild og þá var einnig áhugi erlendis frá.
„Mig langaði að taka næsta skref, var búinn að vera í Njarðvík í tvö og hálft ár, hjálpaði þeim að taka skref fram á við. Á endanum vorum við einu marki frá því að fara beint upp í efstu deild. Það kitlaði að fara í Bestu deildina, en annað hvort færðu gigg þar eða ekki, ef ekki þá skoðar þú eitthvað annað og það voru fleiri félög sem voru í mixinu, bæði hér á Íslandi og erlendis líka. Það er gott og gaman að sjá að það voru fleiri á eftir mér, eitthvað er maður að gera rétt og kitlar egóið að vera í þannig stöðu."
„Ég var nálægt því að fara erlendis, á endanum fannst mér þetta ekki alveg rétti tímapunkturinn til að gera þetta; taka fjölskylduna og fara út á þessum tímapunkti," segir Gunnar Heiðar sem orðaður við starf hjá Halmstad í Svíþjóð.
„Ég er mjög ánægður að vera kominn í HK og í það sem félagið vill gera. Ég lít klárlega á HK sem skref upp á við frá Njarðvík. Þetta er klúbbur sem er búinn að vera í Bestu deildinni sjö sinnum á síðustu tíu árum. Aðstaðan er upp á tíu, það er þekking í félaginu hvernig á að fara upp í Bestu og við stefnum þangað. Metnaður minn er að gera betur sem þjálfari, gera betur en í fyrra. HK var einum leik frá því að fara upp í sumar. Metnaðurinn hjá öllum er að gera betur, en til þess að það gerist þarf að leggja enn harðar að okkur. Ég finn að menn eru tilbúnir að gera það. Ég get lofað þér því að HK verður mjög skemmtilegt og erfitt lið að mæta á næsta ári."
HK spilar inni í Kórnum. Gunnar Heiðar var spurður út í það.
„Við búum á Íslandi, getur verið skítaveður. Ég stend alveg við fyrri orð að mér finnst að við eigum ekki að spila inni á sumrin. En aðstaðan er frábær, gervigrasið er mjög gott og á pari við önnur gervigrös á Íslandi - en við erum með þak yfir. Það er stefnan að byggja völl við hliðina á Kórnum og það var einn af punktunum í söluræðu HK þegar þeir vildu fá mig. Þetta er mjög skemmtilegt og spennandi verkefni sem er í gangi í Kórnum."
„Stefnan er að gera betur en í sumar, ég vil gera betur og HK vill gera betur. Það er því mjög auðvelt að rýna í hvað við viljum gera. Stefnan er að fara upp, segir Gunnar Heiðar.
Viðtalið er talsvert lengra og má nálgast það í heild sinni í spilaranum efst.
Athugasemdir























