Liverpool undirbýr tilboð í Smit - Jackson vill ekki fara frá Bayern - Baleba ofarlega á óskalista Amorim - Pulisic bíður með að skrifa undir
   mán 17. nóvember 2025 09:00
Ívan Guðjón Baldursson
Heimir: Erum ekki búnir að ná neinum árangri
Mynd: EPA
Heimir Hallgrímsson hefur mikla trú á leikmannahópi írska landsliðsins og vonast til að komast með liðið á lokamót HM sem fer fram á næsta ári.

Írar voru aðeins með eitt stig eftir þrjár fyrstu umferðirnar í undankeppninni en tryggðu sér umspilssæti með þremur sigrum í seinni hluta undankeppninnar. Þeir slógu Ungverjaland úr leik í hörkuslag í gær þar sem Troy Parrott var hetjan með þrennu. Sigurmarkið gerði hann á lokasekúndum leiksins.

Heimir hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu Íra í síðustu leikjum en hljóðið var öðruvísi fyrr í haust þegar margir stuðningsmenn Íra vildu sjá þjálfarann vera rekinn.

„Ég les ekki blöðin og ég nota ekki samfélagsmiðla þannig að ég er ekki að leita af umræðunni. Þrátt fyrir það get ég augljóslega ekki komist alveg hjá henni. Þetta er alveg eins þegar ég tapa leikjum, ég fer ekki í fjölmiðla að lesa allan skítinn sem er skrifaður um mig. Það væri kaldhæðnislegt ef ég myndi svo gera það bara þegar ég sigra," sagði Heimir.

„Ég veit hvar við erum staddir sem lið og ég veit hvaða þýðingu þessir sigrar hafa fyrir okkur. Þetta þýðir ekki bara að við erum að stækka og verða betri sem lið og liðsheild, heldur eru þetta auknir möguleikar á tekjum fyrir írska fótboltasambandið. Þær tekjur munu svo skila sér í írska boltann og hjálpa við að hækka staðalinn heima fyrir, bæði í karla- og kvennaflokki.

„Vonandi er þetta byrjunin á einhverju frábæru. Ég óska þess að eftir 10 ár geti fólk litið til baka og sagt að við erum mennirnir sem byrjuðum uppgang írska boltans."


Heimir tók sérstaklega fram að leiðin er ennþá löng fyrir írska landsliðið þrátt fyrir þrjá sigurleiki í röð.

„Við erum ekki ennþá búnir að ná neinum árangri. Þessi sigur hérna er ekki árangur. Árangur er að vera á ferðalagi í rétta átt með tilheyrandi bætingum sem koma með tímanum. Við erum á því ferðalagi en þurfum meiri tíma til að ná árangri. Við ætlum að njóta stundarinnar núna en við megum aldrei gleyma hvar við erum og hvert við viljum fara."
Athugasemdir
banner
banner