Arsenal og Man Utd vilja Adeyemi - Stórveldi á eftir miðjumanni AZ - PSG vill Vinícius á frjálsri sölu 2027 - Newcastle skoðar Trafford
   mán 17. nóvember 2025 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Undankeppni HM: Austur-Kongó sló Kamerún og Nígeríu úr leik
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Austur-Kongó er búið að tryggja sér þátttöku í umspilsmóti um sæti á HM á næsta ári með fræknum sigrum gegn stórum fótboltaþjóðum Kamerún og Nígeríu í landsleikjahlénu.

Austur-Kongó, eða Lýðstjórnarlýðveldið Kongó, lagði Kamerún að velli í undanúrslitaleik í umspili Afríkuþjóða fyrir HM, þar sem Chancel Mbemba fyrrum leikmaður Newcastle skoraði eina mark leiksins í uppbótartíma.

Mbemba leikur í dag sem samherji Hákons Arnars Haraldssonar hjá Lille en hefur einnig verið hjá Porto, Marseille og Anderlecht á flottum ferli.

Austur-Kongó marði Kamerún í nokkuð jöfnum slag þar sem mátti finna úrvalsdeildarleikmennina Carlos Baleba, Bryan Mbeumo og Jackson Tchatchoua í byrjunarliði Kamerún.

Úrvalsdeildarleikmennirnir Aaron Wan-Bissaka, Axel Tuanzebe og Noah Sadiki voru í byrjunarliði Austur-Kongó, með Arthur Masuaku á bekknum ásamt Edo Kayembe, leikmanni Watford.

Í sömu umferð hafði Nígería betur gegn Gabon til að tryggja sér sæti í úrslitaleik umspilsins. Staðan var 1-1 eftir venjulegan leiktíma en Nígeríumenn innsigluðu sigurinn með þremur mörkum í framlengingu. Victor Osimhen skoraði tvö þeirra.

Mario Lemina leikmaður Galatasaray skoraði eina mark Gabon í tapinu en Pierre-Emerick Aubameyang var einnig meðal byrjunarliðsmanna. Í byrjunarliði Nígeríu mátti finna menn á borð við Alex Iwobi, Samuel Chukwueze og Ademola Lookman.

Þessir tveir leikir fóru fram fyrir helgi svo Austur-Kongó og Nígería áttust við í úrslitaleik umspilsins í gær.

Frank Onyeka, leikmaður Brentford, tók forystuna snemma leiks fyrir Nígeríu en Meschack Elia, leikmaður Alanyaspor í Tyrklandi, jafnaði metin fyrir leikhlé. Staðan var jöfn í hálfleik en Austur-Kongó var sterkara liðið í seinni hálfleik, án þess þó að skapa sér mikið eða takast að skora.

Leikurinn fór því í framlengingu og áfram voru lærlingar í liði Sebastien Desabre sterkari aðilinn, en tókst ekki að skora. Því var gripið til vítaspyrnukeppni.

Þar klúðruðu Nígeríumenn fyrstu tveimur spyrnunum sínum og enduðu á að tapa vítakeppninni í bráðabana.

Moses Simon og Calvin Bassey brenndu af í liði Nígeríu á meðan Samuel Moutoussamy og Axel Tuanzebe klúðruðu fyrir Austur-Kongó.

Það var svo í bráðabana sem Semi Ajayi, leikmaður Hull City, klúðraði af punktinum. Chancel Mbemba fór á punktinn beint á eftir og tryggði Austur-Kongó sigur með marki.

Austur-Kongó fer því í umspil um sæti á HM næsta mars. Þar munu sex lið mæta til leiks.

Þau verða: Bólivía, Nýja-Kaledónía, Austur-Kongó, tvær þjóðir frá Norður-Ameríku og ein þjóð frá Asíu. Asíuþjóðin verður annað hvort Írak eða Sameinuðu arabísku furstadæmin.

Kamerún 0 - 1 Austur-Kongó
0-1 Chancel Mbemba ('91)

Nígería 4 - 1 Gabon
1-0 Akor Adams
1-1 Mario Lemina ('89)
2-1 Chidera Ejuke ('97)
3-1 Victor Osimhen ('102)
4-1 Victor Osimhen ('110)

Nígería 1 - 1 Austur-Kongó
1-0 Frank Onyeka ('3)
1-1 Meschack Elia ('32)
3-4 í vítaspyrnukeppni
Athugasemdir
banner
banner