Erling Haaland var á sínum stað í byrjunarliði norska landsliðsins gegn Ítalíu í gærkvöldi og átti frábæran seinni hálfleik eftir hljóðlátan fyrri hálfleik.
Ítalir leiddu 1-0 í hálfleik en Norðmenn svöruðu með fjórum mörkum í síðari hálfleiknum á San Siro leikvanginum í Mílanó. Haaland skoraði tvö þeirra.
Haaland er þar með búinn að skora í ellefu landsleikjum í röð og jafnar þannig 63 ára gamalt met frá fyrrum landsliðsmanni Malasíu, Abdul Ghani Minhat, sem skoraði í ellefu landsleikjum í röð frá 1961 til 1962.
Haaland er búinn að vera ótrúlega góður á upphafi tímabils og er kominn með 19 mörk í 15 leikjum með Manchester City. Hann er auk þess búinn að skora 12 mörk í síðustu 4 landsleikjum í undankeppninni.
Haaland er í heildina búinn að skora 55 mörk í 48 landsleikjum, sem er ótrúleg tölfræði.
Athugasemdir



