Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari Íra var kátur eftir glæsilegan endurkomusigur gegn Ungverjalandi í undankeppni HM í gær.
Sigurinn tryggir Írum sæti í umspili um sæti á HM, þar sem lærlingar Heimis munu þurfa að sigra í tveimur einvígum til að komast á lokamótið.
Heimir segir að sigurinn gegn Ungverjum hafi verið sérstaklega sætur og minnistæður útaf sigurmarki seint í leiknum. Hann líkti sigrinum við 2-1 sigur Íslands gegn Austurríki á EM 2016.
„Á lokamínútunum skoraði Ísland gegn Austurríki á EM og það var alveg eins og í dag. Þetta eru stundir sem þú munt muna eftir restina af lífinu þegar þetta gerist á svona dramatískan hátt. Ég sagði fyrir leikinn að mér væri alveg sama hvenær við myndum skora sigurmarkið. Það er alltaf betra að skora á lokamínútunum útaf því að það gerir andstæðingunum erfiðara fyrir að jafna leikinn," sagði Heimir.
„Þetta er svolítið fyndið útaf því að allur þessi tími sem þeir eyddu með töfunum sínum kom í bakið á þeim þegar við skoruðum. Þeir höfðu ekki tíma til að jafna, þeir voru búnir að nota hann allan.
„Ég held að þeir hafi verið smá hræddir á lokakafla leiksins og þess vegna bökkuðu þeir aftar í skotgrafirnar. Þrátt fyrir þennan sigur þá verð ég að hrósa Ungverjunum útaf því að þeir voru líklega betri en við í dag, sérstaklega í fyrri hálfleiknum.
„Strákarnir héldu í trúna, þeir héldu áfram að banka á dyrnar og nýttu svo færin sín. Stundum gengur þetta upp og stundum ekki, sem betur fer þá gekk þetta upp fyrir okkur í dag. Við hentum framherjum inná og vorum með þrjá svoleiðis á lokakaflanum. Við hentum öllum fram og vorum heppnir að þeir refsuðu okkur ekki með marki úr skyndisókn."
Troy Parrott skoraði öll þrjú mörk Írlands í sigrinum eftir að hafa gert bæði mörkin í 2-0 sigri gegn Portúgal fyrir helgi.
16.11.2025 16:55
Heimir: Vil óska írsku þjóðinni til hamingju
„Það er erfitt að tala ekki um leikmann sem skoraði fimm mörk í tveimur mikilvægum leikjum. Hann lagði mikla vinnu á sig og það er magnað að hann hafi haft orkuna í að klára tvo heila leiki í landsleikjahlénu, verandi nýbúinn að jafna sig eftir meiðsli."
Þrátt fyrir sigurinn var Heimir ósáttur með fyrri hálfleik sinna manna.
„Við vorum passívir í fyrri hálfleik og ég veit ekki af hverju við vorum svona hræddir í byrjun leiks. Við vorum sérstaklega slakir fyrstu 15 mínúturnar og útlitið var ekki gott eftir fyrsta markið þeirra. Þegar allt kemur til alls var kannski gott fyrir okkur að fá mark á okkur snemma leiks, þetta gaf okkur meiri tíma til að jafna okkur og veitti strákunum aukinn kraft. Í hálfleik sagði ég við strákana að við þyrftum að leggja allt í sölurnar, við hefðum engu að tapa."
Athugasemdir




