Hallgrímur Heimisson, sonur Heimis Hallgrímssonar landsliðsþjálfara Írlands, tjáði sig um föður sinn og framtíð hans fyrir úrslitaleik Íra gegn Ungverjum í gær.
Írar lentu 2-1 undir í Ungverjalandi en komu til baka og unnu viðureignina þökk sé Troy Parrott sem skoraði öll þrjú mörk þjóðarinnar í sigrinum frækna, eftir að hafa sett bæði mörkin í óvæntum sigri gegn Portúgal fyrir helgi.
Hallgrímur ræddi um Heimi og landsliðsþjálfarastarfið í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu 977 á laugardaginn.
„Hann þarf að taka ákvörðun og sambandið líka. Þeir buðu honum nýjan samning fyrir einhverju síðan en eftir þennan tapleik á móti Armeníu kom mikill hiti frá írsku þjóðinni. Þá ákvað pabbi bara að bíða með þetta, hann vill ekki vera einhvers staðar þar sem stuðningsmenn vilja hann ekki," sagði Hallgrímur meðal annars í útvarpsþættinum.
Núverandi samningur Heimis við írska landsliðið gildir út undankeppnina. Fótboltasambandið þar í landi er talið vera ólmt að bjóða honum nýjan samning eftir magnaðan landsleikjaglugga.
Heimir mun stýra Írlandi í umspilsleikjunum fyrir sæti á lokamóti HM. Samþykki hann nýjan samning mun hann vera við stjórnvöl írska landsliðsins á heimavelli á EM 2028.
15.11.2025 15:39
Útvarpsþátturinn - Úrslitaleikur í Varsjá og Heimir gegn Ronaldo
Athugasemdir




