Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 21. mars 2019 14:30
Arnar Helgi Magnússon
Áfall fyrir Selfyssinga - Clem spilar ekki í sumar
Mynd: Fotbolti.net - Anna Þonn
Mynd: UMFS
Kvennalið Selfoss hefur orðið fyrir miklu áfalli en markvörður liðsins, Caitlyn Clem, mun ekki geta leikið með liðinu í sumar.

Caitlyn Clem kom til Selfyssinga fyrir síðasta tímabil en hún var einn allra besti markvörður deildarinnar síðasta sumar. Eftir tímabilið gerði hún síðan tveggja ára samning við liðið.

Hún var með magnaða tölfræði hvað varðar varin skot í leikjum en að meðaltali varði hún 4,1 skot í leik.

Hún meiddist í leik gegn Val um síðustu helgi en þetta var hennar fyrsti leikur með Selfoss á undirbúningstímabilinu. Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss staðfestir að hún sé nú farin heim til Bandaríkjanna og muni ekki leika með liðinu í sumar vegna meiðslanna.

„Þetta er auðvitað skellur fyrir okkur að hún sé farin. Hún reyndist okkur gríðarlega vel á síðasta ári, hún er frábær leikmaður og ekki síst liðsmaður. Hún var orðinn alvöru Selfyssingur," sagði Alfreð í samtali við Fótbolta.net.

Alfreð segir að leit sé nú hafin að nýjum markverði.

„Við erum farin á fullt í að reyna að finna markmann sem að kemur í hennar stað, það verður bara að koma í ljós hver það verður. Við höldum bara ótrauð áfram og við verðum klár þegar Íslandsmótið hefst 2. maí," segir Alfreð að lokum.

Selfoss mætir Stjörnunni á útivelli í fyrstu umferð deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner