Kompany vill taka við Bayern - Isak og Brobbey efstir á blaði Arsenal - McKenna orðaður við Chelsea og Man Utd
banner
   sun 21. apríl 2024 16:16
Brynjar Ingi Erluson
England: Palace fór illa með West Ham - Villa í góðri stöðu
Jean-Philippe Mateta fagnar fyrir framan stuðningsmenn
Jean-Philippe Mateta fagnar fyrir framan stuðningsmenn
Mynd: Getty Images
Eberechi Eze skoraði geggjað mark
Eberechi Eze skoraði geggjað mark
Mynd: Getty Images
Aston Villa-menn eru á góðri siglingu
Aston Villa-menn eru á góðri siglingu
Mynd: Getty Images
Aston Villa og Crystal Palace unnu bæði í 34. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag en Palace fór illa með West Ham á Selhurst Park á meðan Villa-menn ætla ekki að klikka á því að komast í Meistaradeild Evrópu fyrir næsta tímabil.

Palace vann 5-2 sigur á West Ham, en leikurinn var svo gott sem búinn í hálfleik.

Heimamenn voru greinilega vel gíraðir eftir að hafa unnið Liverpool síðustu helgi en þegar 31 mínúta var komin á klukkuna var staðan 4-0.

Michael Olise og Eberechi Eze komu Palace í 2-0. Olise skoraði með skalla á 7. mínútu á meðan Eze skoraði geggjað mark úr bakfallsspyrnu níu mínútum síðar.

Emerson kom boltanum í eigið net á 20. mínútu áður en Jean-Philippe Mateta gerði fjórða markið á 31. mínútu. Svakaleg brekka hjá West Ham sem náði inn einu marki fyrir hálfleik er Michail Antonio skoraði.

Mateta tókst að gera fimmta mark Palace og annað mark sitt í leiknum þegar hálftími var eftir. Mikilvægt mark til að loka leiknum.

Undir lok leiks gerðu Palace-menn neyðarlegt sjálfsmark. Tyrick Mitchell kom með óþægilegan bolta niður á Dean Henderson, sem missti hann undir sig og í netið. Leiðinlegur endir á annars frábærum leik.

Palace er í 14. sæti með 36 stig en West Ham í 8. sæti með 48 stig.

Aston Villa nálgast Meistaradeildina

Aston Villa kláraði sitt er liðið lagði Bournemouth að velli, 3-1, á Villa-Park.

Heimamenn lentu að vísu undir eftir hálftíma er Matty Cash braut af sér í teignum. Dominic Solanke skoraði af puntkinum.

Bournemouth fékk mark á sig á mikilvægum tímapunkti eða undir lok fyrri hálfleiks. Moussa Diaby vann boltann við teig Villa og var það Leon Baily sem tók síðan boltann, átti magnaða sendingu út á vinstri vænginn á Morgan Rogers sem kom sér inn í teiginn og setti boltann í netið.

Moussa Diaby kom Villa yfir á 57. mínútu. Ollie Watkins átti svakalegan sprett á vinstri vængnum, fékk boltann, kom honum síðan inn fyrir á Diaby sem skoraði. Watkins lagði upp annað mark sitt í leiknum tuttugu mínútum síðar.

Watkins hljóp framhjá Neto í markinu og lét vaða á markið. Skotið var ekki fast og var ekki á leið inn, en í staðinn varð þetta að geggjaðri sendingu á Bailey sem kláraði örugglega í netið.

Flottur sigur hjá Aston Villa sem er áfram í 4. sæti deildarinnar, nú með 66 stig, sex stigum meira en Tottenham sem er í 5. sætinu. Styttist í að Meistaradeildarlagið fari að hljóma á Villa-Park.

Úrslit og markaskorarar:

Aston Villa 3 - 1 Bournemouth
0-1 Dominic Solanke ('31 , víti)
1-1 Morgan Rogers ('45 )
2-1 Moussa Diaby ('57 )
3-1 Leon Bailey ('78 )

Crystal Palace 5 - 2 West Ham
1-0 Michael Olise ('7 )
2-0 Eberechi Eze ('16 )
3-0 Emerson ('20 , sjálfsmark)
4-0 Jean-Philippe Mateta ('31 )
4-1 Michail Antonio ('40 )
5-1 Jean-Philippe Mateta ('64 )
5-2 Tyrick Mitchell ('89 , sjálfsmark)
Athugasemdir
banner
banner