Kompany vill taka við Bayern - Isak og Brobbey efstir á blaði Arsenal - McKenna orðaður við Chelsea og Man Utd
banner
   sun 21. apríl 2024 08:45
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Minna af „kjaftæði“ en verður enn „djöfulsins harka“
Frá viðureign liðanna í vetur.
Frá viðureign liðanna í vetur.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mæta Blikar með rútunni í kvöld?
Mæta Blikar með rútunni í kvöld?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Bjarnason gekk í raðir Breiðabliks í vetur.
Aron Bjarnason gekk í raðir Breiðabliks í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verður alvöru stórleikur í Bestu deildinni í kvöld þegar Víkingur og Breiðablik, Íslandsmeistarar síðustu ára, eigast við í Fossvoginum. Hitað var upp fyrir leikinn í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.

Það hafa verið mikil læti í viðureignum þessara tveggja liða og þó búast megi við hörku inni á vellinum í kvöld er ekki búist við alveg miklum látum utan vallar í kvöld, meðal annars þar sem Óskar Hrafn Þorvaldsson er farinn frá Breiðabliki.

„Ég er að búast við minna af svona 'kjaftæði'; minni læti í boðvöngunum, Logi verður ekki að kýla menn og Gulli Jóns þarf væntanlega ekki að stía menn í sundur. En inni á vellinum verður þetta örugglega ennþá djöfulsins harka," segir Tómas Þór Þórðarson.

„Ég held að þetta muni snúast um fótbolta en rígurinn er búinn. Það gæti verið minna um þetta 'handbags' núna," segir Haraldur Árni Hróðmarsson.

Alvöru áskorun fyrir Víking
Víkingur og Breiðablik eru bæði með fullt hús eftir tvær umferðir og hafa haldið marki sínu hreinu. Hvað aðgreinir þessi tvö lið sem eru ansi líkleg til að berjast um Íslandsmeistaratitilinn í ár?

„Það er voðalega lítið," segir Tómas og Haraldur tekur undir það.

„Þetta eru tvö mjög sterk lið sem ná sögulegum árangri í fyrra. Mér finnst Blikarnir líta vel út og ég held að þeir verði bara betri. Víkingarnir voru ekkert sérstakir á móti Fram og voru heldur ekkert ótrúlegir gegn Stjörnunni," segir Haraldur.

„Að fá Breiðablik núna er kannski eitthvað sem Víkingar hafa verið að bíða eftir, fá alvöru áskorun og smá högg á kjaftinn sem getur sett þá í gang."

Blikarnir líklegri til að skora mörk
Sóknarleikur Breiðabliks hefur litið betur út en sóknarleikur Víkings í fyrstu tveimur umferðunum.

„Aron Bjarna er kominn inn hjá Breiðabliki. Vesenið með hann og Jason Daða er að þeir eru báðir betri hægra megin finnst mér. Aron og Kiddi Jóns eiga eftir að ná betri tengingu líka. Kiddi er ekki alveg að fá sendingarnar frá Aroni sem hann vill. En það kemur," segir Haraldur.

„Blikarnir hafa verið frískastir fram á við í þessum 180 mínútum sem þeir hafa spilað. Jason fór af stað með hvelli, sem er gríðarlega mikilvægt fyrir hann og Breiðablik. Á meðan hefur sóknarlína Víkings verið döpur miðað við hvað hún getur. Mér finnst Blikarnir líklegri til að skora einhver mörk," segir Tómas.

Í þættinum er nánar rætt um það við hverju megi búast í kvöld, hvort Breiðablik mæti í rútunni, hvort Danijel Djuric kveiki á sér og ýmislegt fleira.
Útvarpsþátturinn - Brottvísun sem eyðilagði leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner