Búast við að De Bruyne skrifi undir - Chelsea vill kaupa Trafford - Thiago spilandi aðstoðarþjálfari Barca - PSG býður 100 milljónir fyrir...
   fim 21. nóvember 2013 22:00
Sigmundur Ó. Steinarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ásgeir stendur enn óhaggaður - er sá besti
Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson
Ásgeir Sigurvinsson, fyrirliði Stuttgart, með meistaraskjöldinn á lofti 1984. Hann var valinn knattspyrnumaður ársins af leikmönnum og var í liði ársins í Kicker, en alls 10 sinnum í liði vikunnar.
Ásgeir Sigurvinsson, fyrirliði Stuttgart, með meistaraskjöldinn á lofti 1984. Hann var valinn knattspyrnumaður ársins af leikmönnum og var í liði ársins í Kicker, en alls 10 sinnum í liði vikunnar.
Mynd: Sigmundur Ó. Steinarsson
Ein af fjölmörgum úrklippum þar sem sagt er að Ásgeir sé einn besti miðvallarleikmaður heims, ef ekki sá allra besti. Og vitnað er í Franz Beckenbauer.
Ein af fjölmörgum úrklippum þar sem sagt er að Ásgeir sé einn besti miðvallarleikmaður heims, ef ekki sá allra besti. Og vitnað er í Franz Beckenbauer.
Mynd: Sigmundur Ó. Steinarsson
Jürgen Klinsmann, Ásgeir Sigurvinsson og Fritz Walter á góðri stundu.
Jürgen Klinsmann, Ásgeir Sigurvinsson og Fritz Walter á góðri stundu.
Mynd: Sigmundur Ó. Steinarsson
Íslendingar eiga það oft til að fara fram úr sér og gera stórmál úr ýmsum málum sem koma upp. Það gerðist í kringum hundinn Lúkas á Akureyri, þegar menn fóru hamförum í kommentakerfum fjölmiðlanna og spöruðu ekki stóru orðin – þegar hundurinn fór að heiman um stundarsakir.

Það gerðist fyrir kveðjuleik Ólafs Stefánssonar, hins frábæra handknattleikmanns. Það gerðist þegar knattspyrnukappinn og gleðigjafinn Hermann Gunnarsson lést og þegar hann var jarðsunginn.

Það er nú að gerast þegar knattspyrnumaðurinn snjalli Eiður Smári Guðjohnsen sagði að hann væri líklega búinn (Já, líklega!) að leika sinn síðasta landsleik. Þá var því slegið upp að hann væri hættur. Eiður Smári sagði aldrei að hann væri hættur! Margir fullyrtu að hann væri besti knattspyrnumaður sem Ísland hefði alið!

Mönnum er alltaf hætt á að missa sig á tilfinningaþrungnum stundum - halda ekki jafnvægi. Það er miklu auðveldara að fara fram úr sjálfum sér, heldur en að setjast niður og hugsa um hlutina með yfirvegun.

Ég á erfitt með að átta mig á, að við aðeins það eitt að leggja landsliðsskóna á hilluna, tryggi það að menn – verði eins og hendi sé veifað – BESTU knattspyrnumenn Íslands!

Hefur eitthvað breyst síðan Ásgeir Sigurvinsson var 2004 - á 50 ára afmæli Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA – útnefndur besti knattspyrnumaður Íslands: „Iceland's Golden Player“? Hefur eitthvað breyst síðan Ásgeir var kjörinn og útnefndur besti knattspyrnumaður Íslands í hófi hjá KSÍ 2008?

Hefur eitthvað breyst síðan íþróttasérfræðingur danska ríkisútvarpsins, Marco de los Reyes, valdi Ásgeir í hóp 25 bestu knattspyrnumanna Norðlandanna frá upphafi og rökstuddi það val 2012? Marco, sem hefur verið fréttamaður á mörgum EM og HM, var blaðamaður hjá Berlingske Tidende áður en hann fór til danska ríkisútvarpsins.

Það hefur ekkert breyst – það hefur enn ekki komið fram leikmaður sem hefur fellt Ásgeir af stalli. Honum er óhaggað eins og fjölmargir gamlir refir í heimalöndum sínum - Paul Van Himst í Belgíu, Michael Laudrup í Danmörku, Bobby Moore í Englandi, Just Fontaine í Frakklandi, Fritz Walter í Þýskalandi, Dino Zoff á Ítalíu, Johan Cruyff í Hollandi, Lev Yashin í Rússlandi, Denis Law í Skotlandi og Alfredo di Stéfano á Spáni. Þrátt fyrir að margir frábærir leikmenn hafi komið fram á Spáni á síðustu árum, stendur Di Stefano enn stöðugur á efsta palli, eins og Ásgeir á Íslandi.

Leikmaður sem sagður var besti miðjumaður Þýskalands og einn sá besti í heimi - leikmaður sem er enn nefndur í Þýskalandi í sömu andránni og Wolfgang Overath, Gunter Netzer, Heinz Flohe, Felix Magath og Paul Breitner er engin „smákarl“.

Frans Beckenbauer "Keisarinn" – fyrirliði heimsmeistara Þýskalands 1974 og þjálfari heimsmeistara Þýskalands 1990, sagði oft í viðtölum við þýsk blöð, France Football og World Soccer að hann vildi hafa Ásgeir til að stjórna miðvallarspili landsliðs Þýskalands.

Ásgeir var spurður í sjónvarpsviðtali í Þýskalandi eftir að hann lék lykilhlutverk og var fyrirliði meistaraliðs Stuttgart 1984 og var valinn leikmaður Þýskalands af leikmönnum, hvort hann hefði hug á að gerast þýskur ríkisborgari til að geta leikið með landsliði Þýskalands. Svarið var afdráttarlaust: „Ég er Íslendingur - ekkert annað!“

Jürgen Klinsmann, miðherjinn snjalli, sem varð heimsmeistari með Þýskalandi 1990 og Evrópumeistari 1996 – síðan landsliðsþjálfari Þýskalands og nú landsliðsþjálfari Bandaríkjanna, sagði í viðtali við Skapta Hallgrímsson í Morgunblaðinu 1994, að Ásgeir væri besti knattspyrnumaður sem hann hafi leikið með og Ásgeir hefði getað gengið inni í hvaða landslið sem væri í heiminum.

Ásgeir var átrúnaðargoð margra Belgíumanna og Þjóðverja er hann lék með Standard Liege, Bayern München og Stuttgart. Gekk undir nafninu „Zico norðursins“ eða „Eismeer Zico“ og þá kom þessi vísa hér á klakanum:
Vaskur sonur Íslands er
Úti meðal þjóða.
Vel um landans sómar sér
„Zico“ norððurslóða.
Einn þeirra sem hélt mikið upp á Ásgeir er Manfred Münchrath, yfirmaður erlendrar knattspyrnu á hinu virta þýska knattspyrnutímariti Kicker, sem sendi línur til mín eftir að ég sagði honum að ég væri að rita sögu landsliðsins í knattspyrnu:

„Lieber Sigmundur,
Ásgeir war ein Idol von mir....
Das Buch über das isländische Nationalteam ist interessant. Kannst Du mich bitte informieren, wenn Du damit fertig bist?
Viele Grüße
Manfred.“

Í lauslegri þýðingu: „Ásgeir var átrúnaðargoð mitt ....
Bókin um íslenska landsliðið er áhugaverð. Viltu vinsamlega láta mig vita þegar þú ert búin með verkið?
kveðjur
Manfred.“

Já, hefur eitthvað breyst?

Knattspyrnukveðja,
Sigmundur Ó. Steinarsson
Athugasemdir
banner
banner
banner