sun 22. mars 2020 21:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Cellino vill aflýsa tímabilinu: Hætti að trúa á kraftaverk fyrir löngu
Massimo Cellino.
Massimo Cellino.
Mynd: Getty Images
Massimo Cellino, forseti ítalska úrvalsdeildarfélagsins Brescia, vill að leiktímabilinu á Ítalíu verði aflýst. „Ég er ekki að segja þetta vegna þess að Brescia er í síðasta sæti, við eigum skilið að vera í síðasta sæti," segir Cellino við Corriere dello Sport dagblaðið.

Ítalía er það land sem hefur komið verst út úr kórónuveirunni og hafa um 5,500 látið lífið í landinu vegna veirunnar. Cellino, sem átti Leeds United frá 2014 til 2017, vill að tímabilinu verði aflýst vegna þessarar „plágu".

„Það verður að færa allt yfir á næsta tímabil. Það er kominn tími á raunsæi herrar mínir. Þetta er plága."

„Það er ekki hægt að spila meira á þessu tímabili. Hugsið um næsta tímabil. Sumt fólk áttar sig ekki enn á því hvað er að gerast, og það fólk er verra en veiran. Ég trúi ekki á kraftaverk, ég hætti að gera það fyrir löngu síðan."

Birkir Bjarnason er á mála hjá Brescia sem er á botni ítölsku úrvalsdeildarinnar. Cellino er ekki hrifinn af þeirri hugmynd af hefja æfingar að nýju á næstunni.

„Ef einhver vill þennan bölvaða titil þá mega þeir taka hann. Þetta er búið," segir Cellino.
Athugasemdir
banner
banner