lau 22. júní 2019 11:32
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
María þaggaði niður í efasemdarröddunum
Mynd: Getty Images
María Þórisdóttir hefur staðið sig mjög vel með Noregi á Heimsmeistaramótinu í Frakklandi.

María, sem leikur með Chelsea á Englandi, er dóttir Þóris Hergeirssonar sem þjálfar norska kvennalandsliðið í handbolta. Hún valdi að spila fyrir Noreg enda hefur hún búið alla sína ævi í Noregi.

Fyrir mótið voru margar efasemdarraddir um Maríu. Þessar efasemdarraddir vöknuðu vegna þess að hún var mikið frá í vetur vegna höfuðmeiðsla.

„Það mikilvægasta er að ég hafði aldrei efasemdir um sjálfa mig," segir María í viðtali sem birtist í Aftenposten.

Í Noregi velti fólk því fyrir sér hvort hún yrði tilbúin í mótið, en hún hefur verið frábær á mótinu. Lars Tjærnås, sérfræðingur Aftenposten, gefur henni 7 í einkunn fyrir riðlakeppnina og segir hana hafa verið besta leikmann Noregs.

María leikur í hjarta varnarinnar hjá Noregi með Maren Mjelde. Þær eru góðar vinkonur og leika þær einnig saman hjá Chelsea í Englandi.

„Hún er líklega besti íþróttamaðurinn í liðinu, ég efaðist aldrei um líkamlegt form hennar. Gott samband okkar gerir okkur auðveldara fyrir á vellinum," segir Mjelde.

María verður í eldlínunni í kvöld þegar Noregur leikur við Ástralíu í 16-liða úrslitum Heimsmeistaramótsins. Leikurinn hefst klukkan 19:00 og er sýndur í beinni á RÚV 2.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner