Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   fös 22. september 2023 10:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fyrirliði Wales: Sveindís er einn besti kantmaður í heiminum
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Stelpurnar í íslenska landsliðinu hefja í kvöld leik í fyrstu útgáfu Þjóðadeildar kvenna er þær mæta Wales á Laugardalsvellinum.

Gemma Grainger, þjálfari Wales, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í gær ásamt fyrirliðanum Sophie Ingle, sem spilar með Englandsmeisturum Chelsea.

Ingle býst við erfiðum leik gegn íslenska liðinu. „Þær eru sterkar líkamlega en við erum frekar litlar. Við þurfum fyrst og fremst að læra að berjast við þær. Þær eru beinskeyttar og með fljóta kantmenn sem við þurfum að vera viðbúnar að takast á við."

Ísland og Wales mættust á æfingamóti í Pinatar í febrúar og endaði sá leikur með markalausu jafntefli.

Ingle talaði sérstaklega vel um Sveindísi Jane Jónsdóttur, sem er lykilmaður í íslenska liðinu. „Hún hefur verið að bæta sig mikið frá því hún kom til Wolfsburg. Hún hefur líka verið að spila vel með Íslandi og er lykilmaður í þeirra liði."

„Hún er með gríðarlegan hraða og hún getur keyrt á þig. Það verður gott próf fyrir varnarlínuna okkar að takast á við hana því hún er einn besti kantmaður í heimi í dag."

Wales er fyrirfram slakasta liðið í riðlinum en Grainger hefur trú á því að hennar stelpur geti komið á óvart. „Við viljum komast á EM og að vera áfram í A-deild gefur okkur besta möguleikann á því."

Leikurinn í kvöld hefst klukkan 18:00 og verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner