Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 22. október 2020 11:17
Magnús Már Einarsson
Vonast eftir hefðbundnum æfingum á höfuðborgarsvæðinu eftir helgi
Guðni Bergsson formaður KSÍ.
Guðni Bergsson formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik í Pepsi Max-deildinni.
Úr leik í Pepsi Max-deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, vonast til frekari afléttinga á reglum varðandi fótboltaæfingar á höfuðborgarsvæðinu í næstu viku. Meistaraflokkkar mega í dag æfa með tveggja metra reglu en æfingar yngri flokka liggja niðri. Keppni í flestum deildum Íslandsmótsins byrjar aftur helgina 7-8. nóvember og Guðni vonast til að meistaraflokkar geti æft með hefðbundnum hætti í næstu viku.

„Maður hefur haldið í bjartsýnina á þessum síðustu og verstu tímum. Með góðum rökum í málinu og samtali yfirvöldum verður vonandi hægt að slaka á varðandi æfingar þannig að hægt verði að æfa með venjulegum hætti en gæta mjög vel að sóttvörnum eins og við höfum gert. Það hefur gengið vel hingað til," sagði Guðni við Fótbolta.net í dag.

„Þetta myndi hjálpa okkur mikið við það að geta klárað mótahaldið okkar og þessa leiki sem eftir eru. Við myndum gæta sérstaklega vel að okkur og ég leyfi mér að vera bjartsýnn. Við erum með góð og gild rök til þess að þetta eigi að vera í lagi. Við vonumst auðvitað líka að smittölurnar verði okkur og samfélaginu í hag."

Almannavarnadeild höfuðborgarsvæðisins sendi í gær frá sér fréttatilkynningu þar sem fram kemur að meistaraflokkar og afrekshópar sem og afreksfólk í einstaklingsgreinum geti hafið æfingar í íþróttamannvirkjum á vegum sveitarfélaganna og félaganna.

„Það er gott að þetta skýrðist í gær. Æfingar eru leyfilegar með þessum takmörkunum hjá meistaraflokkunum og það er mikilvægt skref upp á mótahaldið okkar, að menn geti æft á markvissan hátt í allt að tuttugu manna hópum. Yngri flokkarnir fylgja í kjölfarið þegar búið er að fara betur yfir það mála hjá almannavörnum á höfuðborgarsvæðinu. Það er mikilvægt fyrir líkamlega og andlega heilsu hjá okkar yngri iðkendum. Við eigum að hafa það í huga og hafa sóttvarnaraðgerðir og öryggi í huga á sama tíma."

„Við teljum að það sé lágmarkssmithætta í kringum það að æfa og spila fótbolta. Við höfum ekki viteskju um að menn hafi smitast við að æfa eða spila fótbolta. Það er frekar í hópamyndunum sem við þurfum að passa okkur eins og annars staðar í samfélaginu. Þetta hefur gengið vel og aðildarfélögin hafa verið að gæta vel að sóttvörnum. Eins og kom fram í viðtali við Runólf Pálsson, yfirlækni Covid göngudeildar, þá er lítil smithætta á ferð við fótboltaiðkun og hann tekur undir að við höfum staðið okkur vel í þessum málum. Ég tel að við getum verið stolt af því að hafa náð að halda úti þessu starfi í samstarfi við yfirvöld,"
sagði Guðni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner