þri 22. nóvember 2022 15:47
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Messi biður stuðningsmenn um að treysta liðinu - „Engar afsakanir"
Hafa tvo leiki til að bjarga andlitinu og koma sér upp úr riðlinum.
Hafa tvo leiki til að bjarga andlitinu og koma sér upp úr riðlinum.
Mynd: EPA
„Það eru engar afsakanir. Þetta þjappar okkur enn meira saman," sagði Lionel Messi, fyrirliði argentínska landsliðsins, eftir mjög óvænt tap gegn Sádí-Arabíu fyrr í dag.

Messi kom Argentínu yfir með marki úr vítaspyrnu en í seinni hálfleik komu Sádar til baka og unnu sigur.

„Liðið er sterkt og hefur sýnt það áður. Við bjuggumst ekki við því að byrja svona, en það er ástæða fyrir því að hlutir gerast. Núna verðum við að vinna, það er undir okkur kominn. Ég bið stuðningsmenn um að treysta okkur. Þessi riðlakeppni mun ekki valda þeim vonbrigðum," sagði Messi.

Lautaro Martínez skoraði tvö mörk sem dæmd voru af vegna rangstöðu í leiknum.

„Þetta er mjög sárt. Við gerðum okkur miklar vonir um að byrja HM með sigri. Við töpuðum út af okkar mistökum, frekar en út af einhverju öðru. Það eru smáatriði sem ráða úrslitum og við verðum að læra og laga okkar leik til að koma í veg fyrir mistökin. Við hefðum átt að skora meira en eitt mark í fyrri hálfleik, en þetta er HM og núna eigum við tvo úrslitaleiki eftir," sagði Martínez.

Næsti leikur Argentínu er gegn Mexíkó þann 26. nóvember og svo er lokaleikurinn gegn Póllandi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner