Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 23. febrúar 2024 12:00
Hafliði Breiðfjörð
Launakostnaður hækkar hjá ÍTF og hagnaður af rekstrinum
Birgir Jóhannsson er framkvæmdastjóri ÍTF.
Birgir Jóhannsson er framkvæmdastjóri ÍTF.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍTF fer með markaðsréttindi Bestu-deildanna.
ÍTF fer með markaðsréttindi Bestu-deildanna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björn Þór Ingason er markaðsstjóri ÍTF.
Björn Þór Ingason er markaðsstjóri ÍTF.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá kynningarfundi Bestu-deildanna.
Frá kynningarfundi Bestu-deildanna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenskur Toppfótbolti, ÍTF sendi frá sér tilkynningu í gær í kjölfar aðalfundar samtakanna sem fór fram í síðustu viku þar sem fram kom að greiðslur til aðildarfélaga hafi numið 300 milljónum króna.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net var rætt á fundinum um aukinn launakostnað hjá ÍTF á árinu 2024 en stöðugildum er fjölgað úr tveimur í 2,7. Við það hækkar launakostnaður um 17 milljónir króna milli ára.

Birgir Jóhannsson framkvæmdastjóri ÍTF segir við Fótbolta.net að breytingin sé komin til þar sem verið sé að færa starfsmann úr hlutverki verktaka yfir í launþega og því sé um að ræða tilfærslu á kostnaði.

„Launakostnaður hækkar vegna þess að það er verið að færa starfsmann úr hlutverki verktaka í launþega en ítarlega var farið yfir það á fundinum. Launakostnaðurinn hækkar sem því nemur og svo er gert ráð fyrir eðlilegri hækkun á launakostnaði vegna lausra samninga á vinnumarkaði," sagði Birgir.

„Breytingin eru rúmar 17.mkr sem laun og annar starfsmannakostnaður hækkar en á móti kemur lækkun á öðrum rekstrarkostnaði sem útskýrir þessa hækkun. Það er því verið að færa til kostnað sem var á síðasta ári yfir á launþegaliðinn."

Auk Birgis er Björn Þór Ingason í starfi sem markaðsstjóri ÍTF og Þórir Hákonarson fyrrverandi framkvæmdastjóri KSÍ bætist nú við sem launþegi.

Óvissa með draumaliðsleik Bestu-deildar kvenna
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net var einnig rætt á fundinum um að halda áfram úti draumaliðsleik fyrir Bestu-deild karla þriðja árið í röð en ekki stæði til að hafa leik fyrir Bestu-deild kvenna frekar en hin árin. Birgir segir við Fótbolta.net að ekki sé búið að taka ákvörðun um þetta.

„Á fundinum voru umræður um Fantasy leikinn og er verið að skoða hvaða möguleikar eru í stöðunni en það hafa orðið breytingar á lifandi tölfræðinni (live data). Það hefur því engin ákvörðun verið tekin en samþykkt að skrifstofa ÍTF kortleggi stöðuna og kynni aðildarfélögum þær niðurstöður," sagði Birgir.

21 millljóna hagnaður og gert ráð fyrir því sama 2024
ÍTF fer með réttindi í tveimur efstu deildum karla og kvenna og í uppgjöri ársins kemur fram að tekjur af réttindasölu hafi numið 360 milljónum króna. Þar af voru 300 milljónir greiddar til aðildarfélaganna en ekkert kemur fram um hvernig það er sundurliðað.

„Heildartekjur samtakanna voru á árinu 2023 um 460 milljónir en verulegur kostnaður fylgir því að koma nýju vörumerki Bestu deildanna á framfæri og mun það taka nokkurn tíma og kosta vinnu og fjármuni, en með lengri tíma hagsmuni að leiðarljósi munu þeir fjármunir og sú vinna skila sér enn frekar þegar fram líða stundir," segir í tilkynningu ÍTF.

ÍTF hagnaðist um 21 milljón króna á árinu og gerir ráð fyrir samskonar rekstri á þessu ári, sami hagnaður og sömu greiðslur til aðildarfélaganna.

Ein breyting var á stjórn ÍTF á fundinum, Jónas Kristinsson fulltrúi KR hætti og í hans stað var Styrmir Þór Bragason kosinn en hann kemur frá Val.
Athugasemdir
banner
banner
banner