Búast við að De Bruyne skrifi undir - Chelsea vill kaupa Trafford - Thiago spilandi aðstoðarþjálfari Barca - PSG býður 100 milljónir fyrir...
   þri 23. apríl 2024 15:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Óli Kalli mætti á æfingu hjá Val - „Það eru algjör forréttindi"
Óli Kalli fagnar marki með Fylki síðasta sumar.
Óli Kalli fagnar marki með Fylki síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Kalli lék með Val frá 2018 til 2020.
Óli Kalli lék með Val frá 2018 til 2020.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólafur Karl Finsen mætti nýverið á æfingu með Val en þetta staðfestir hann við Fótbolta.net. Hann lagði skóna á hilluna eftir síðasta tímabil og þannig er staðan enn þegar þessi frétt er skrifuð.

Ólafur spilaði með Val frá 2018 til 2020 og er hann enn í góðu sambandi við fólk innan félagsins.

„Ég fékk að kíkja á æfingu því það er gaman í fótbolta. Mér hefur aldrei fundist ég jafn velkominn í neitt félag eins og Val, ekki bara sem fótboltamaður - líka sem persónu. Að fá að æfa með þessu liði finnst mér samt alls ekki sjálfsagður hlutur og það lýsir þeim mjög vel að leyfa mér að vera með," segir Ólafur við Fótbolta.net en hann mætti til að hressa aðeins upp á hópinn.

„Ég stillti þessu upp í gríni á Instagram því ég kann lítið annað. Ég fylgist mikið með núna eftir að ég hætti og ég held með Val í toppbaráttunni. Mér datt svo margir brandarar í hug þegar ég var að horfa á þá spila síðasta leik að mig langaði að mæta."

„Ég á líka frábært samband við Einar Óla, sjúkraþjálfara Vals, og Jóhann Elíasson, styrktarþjálfara, og ég er að læra mikið af þeim í því sem ég er að gera. Það eru algjör forréttindi að fá að vera aðeins í kringum þá," sagði Óli Kalli en hann útskrifaðist í fyrra sem einkaþjálfari.

Ólafur Karl lék með Fylki síðasta sumar og átti gott tímabil. Hann skoraði fimm mörk í 20 deildarleikjum. Eftir tímabilið tilkynnti hann hins vegar að hann væri búinn að leggja skóna á hilluna, en hann er bara 32 ára gamall.

Hann spilaði lengst af með Stjörnunni á sínum ferli en hann lék einnig fyrir Val og FH.

Hans besta tímabil á ferlinum var 2014 þegar hann skoraði ellefu mörk í 21 deildarleik, og hjálpaði Stjörnunni að verða Íslandsmeistari á eftirminnilegan hátt. Hann skoraði úr vítaspyrnu gegn FH í lokaleiknum og tryggði þannig Stjörnunni titilinn.

Valur er sem stendur í sjöunda sæti Bestu deildarinnar með fjögur stig eftir þrjá leiki. Næsti leikur liðsins er gegn FH í Mjólkurbikarnum á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner