
Omar Sowe og Oliver Heiðarsson eru meiddir. Omar verður frá út tímabilið og Oliver næstu vikurnar hið minnsta.

Oliver var besti leikmaður Lengjudeildarinnar í fyrra, var eftirsóttur biti í vetur og hafði farið ágætlega af stað á tímabilinu.
ÍBV hefur orðið fyrir miklu áfalli því Omar Sowe, framherji liðsins, er með slitið krossband og spilar ekki meira á tímabilinu. Ofan á þau slæmu tími er Oliver Heiðarsson, besti leikmaður liðsins á síðasta tímabili, meiddur á hné og verður frá nætu vikurnar og jafnvel mánuðina. Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, staðfesti tíðindin í samtali við Fótbolta.net í kvöld.
Kristján Óli Sigurðsson í Þungavigtinni sagði fyrstur frá meiðslunum á X í kvöld en hann reyndar sagði að Oliver væri fótbrotinn en það er ekki raunin. Oliver er með brjóskskemmd í hné eftir að hafa fengið þungt högg í leiknum gegn KA um síðustu helgi.
Kristján Óli Sigurðsson í Þungavigtinni sagði fyrstur frá meiðslunum á X í kvöld en hann reyndar sagði að Oliver væri fótbrotinn en það er ekki raunin. Oliver er með brjóskskemmd í hné eftir að hafa fengið þungt högg í leiknum gegn KA um síðustu helgi.
„Omar Sowe er með slitið krossband og fer í aðgerð á næstunni. Það er svolítið erfitt að meta hversu lengi Oliver verður frá, hann er með brjóskskemmdir í hné, fékk mjög þungt högg á sig. Þetta eru ekki góð meiðsli, en við vorum mjög smeykir að þetta væri alvarlega. Það er alveg ljóst að Oliver verður frá í dágóðan tíma. Hann er á hækjum og verður á hækjum næstu vikurnar," segir Láki.
Krossbandsmeiðslin lúmsk
Ertu að gera þér vonir um að Oliver spili í ágúst eða hvernig sérðu þetta?
„Nei, ég er nú bjartsýnni en það, en það er svolítið erfitt að meta þetta. Það sem ég held að hafi bjargað honum er hversu sterkur hann er, þetta hefði getað farið miklu verr."
„Menn eru í miklu áfalli yfir Omari, fyrst og fremst fyrir hans hönd. Hann er leikmaður sem menn voru ekki alveg viss um hvort að gæti spjarað sig í þessari deild, en hann er búinn að vera frábær fyrir ÍBV. Liðið er búið að skora fjórtán mörk í sjö leikjum með hann inn á vellinum, hann hefur gert rosalega mikið fyrir ÍBV. Meiðsli Omars komu okkur á óvart, hann varð betri en hann var fyrst þegar hann meiddist og menn voru bjartsýnir, en krossbandsmeiðslin geta verið svo lúmsk og komu okkur gríðarlega á óvart."
„Í tilfelli Olivers óttaðist ég það versta, þetta var það rosalega mikið högg."
Fimm leikmenn berjast um fremstu þrjár stöðurnar
ÍBV er með leikmenn eins og Sverri Pál Hjaltested, Arnar Breka Gunnarsson og Þorlák Breka Baxter sem geta leyst fremstu stöðurnar.
„Við erum líka með Víði Þorvarðar og Hermann Þór (Ragnarsson), þessa fimm um þessar þrjár fremstu stöður eins og staðan er í dag."
„Það lítur ágætlega út með Hermann, meiðslin í síðasta leik voru bara smávægileg og við reiknum með að hann taki einhvern þátt á morgun. Við ákváðum að taka enga áhættu með hann þegar hann fann snemma leiks fyrir eymslum gegn KA."
Tölfræðin segir allt sem segja þarf
Oliver og Omar eru algjörir lykilmenn hjá ÍBV, bestu sóknarmenn liðsins. Þurfið þið að breyta upplegginu ykkar eitthvað?
„Tölfræðin er þannig að þetta eru leikmenn sem hafa komið að tíu af fjórtán mörkum liðsins. Það segir allt sem segja þarf. Við þurfum aðeins að hnikra til og aðlaga okkur að þessu. Það eru mikil tækifæri núna fyrir þá sem hafa verið að spila minna, við þurfum aðeins að færa til. Þetta er auðvitað stór biti og menn taka út áfall með þessum leikmönnum, þetta er áfall fyrir liðið. Á endanum þarft þú sem þjálfari að finna lausnir, og leikmennirnir sjálfir."
Allir þurfa að stíga upp
Hvernig leggst leikurinn gegn Val í þig?
„Bara vel, eins og allir leikir í þessari deild. Það er svo lítill munur á liðunum og við vitum að Valsmenn eru með gríðarlega sterkt lið, sýndu það á móti Breiðabliki þó að þeir hafi tapað leiknum. Þeir eru gríðarlega vel mannaðir og með ofboðslega sterkt lið. Ef þú passar þig ekki þá geta þeir rassskellt þig, eins og Skagamenn lentu í."
„Að sama skapi höfum við staðið okkur gríðarlega vel, unnið tvo erfiða leiki í bikar og tvo leiki í deildinni. Ég er gríðarlega stoltur af því sem við erum búnir að gera. Núna þurfum við að bregðast við þessum tíðindum og hver og einn maður þarf að stíga upp og fylla í þessi skörð. Við gerum það bara innan frá, ekki með einhverju utanaðkomandi, segir Láki. ÍBV er í 9. sæti Bestu deildarinnar með átta stig.
ÍBV heimsækir Hlíðarenda á morgun og hefst sá leikur klukkan 17:00.
Alvöru áfall fyrir ÍBV. Omar Sowe með slitið krossband og Oliver Heiðars fótbrotinn.#HeimavinnaHöfðingjans
— Kristján Óli Sigurðsson (@kristjanoli) May 23, 2025
Besta-deild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Breiðablik | 7 | 5 | 1 | 1 | 13 - 9 | +4 | 16 |
2. Víkingur R. | 7 | 4 | 2 | 1 | 15 - 7 | +8 | 14 |
3. Vestri | 7 | 4 | 1 | 2 | 8 - 3 | +5 | 13 |
4. Fram | 8 | 4 | 0 | 4 | 14 - 13 | +1 | 12 |
5. KR | 8 | 2 | 4 | 2 | 24 - 18 | +6 | 10 |
6. Stjarnan | 7 | 3 | 1 | 3 | 11 - 12 | -1 | 10 |
7. Afturelding | 7 | 3 | 1 | 3 | 8 - 10 | -2 | 10 |
8. Valur | 7 | 2 | 3 | 2 | 15 - 12 | +3 | 9 |
9. ÍBV | 7 | 2 | 2 | 3 | 7 - 11 | -4 | 8 |
10. FH | 7 | 2 | 1 | 4 | 12 - 12 | 0 | 7 |
11. ÍA | 7 | 2 | 0 | 5 | 7 - 18 | -11 | 6 |
12. KA | 7 | 1 | 2 | 4 | 6 - 15 | -9 | 5 |
Athugasemdir