Joshua Kimmich, fjölhæfur leikmaður FC Bayern og þýska landsliðsins, er einn þeirra sem eru enn óbólusettir gegn Covid-19 veirunni.
Það hefur verið mikil bólusetningarherferð innan knattspyrnuheimsins en Kimmich telur mikilvægt að knattspyrnumenn hafi val og geti kosið að fara frekar í skimun á nokkurra daga fresti.
„Af hverju? Vegna þess að það er ekki hægt að rannsaka langtímaáhrifin. Ég átta mig vissulega á minni ábyrgð enda fylgi ég öllum sóttvarnarreglum og fer í skimun á tveggja til þriggja daga fresti. Allir ættu að eiga rétt til að taka sína eigin ákvörðun," sagði Kimmich þegar hann var spurður út í málið.
Dietmar Hamann, fyrrum landsliðsmaður þýska landsliðsins og leikmaður Bayern sem starfar fyrir Sky í Þýskalandi, bendir þó á vandamál sem hann sér við þessa ákvörðun Kimmich.
„Vandinn er að óbólusettur einstaklingur er líklegri til að koma með veiruna inn í leikmannahópinn og það getur verið vandamál fyrir knattspyrnufélagið. Ef óbólusettur leikmaður greinist með veiruna þá er hann líklegri til að smita frá sér og gæti hálft liðið endað í sóttkví útaf honum," segir Hamann.
„Þá verða áhorfendur að sýna bólusetningar- eða mótefnavottorð til að komast inn á langflesta velli í deildinni. Sú staða gæti komið upp þar sem einu 20 óbólusettu manneskjurnar á vellinum eru leikmennirnir.
„Knattspyrnuheimurinn tapar trúðverðugleika með þessu, það er fáránlegt að áhorfendur verði að vera bólusettir en ekki leikmenn."
Athugasemdir