Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 24. febrúar 2022 08:30
Magnús Valur Böðvarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Vandamálið miklu stærra og útbreiddara
Magnús Valur Böðvarsson
Magnús Valur Böðvarsson
Gervigras
Gervigras
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Getty Images
Mynd: Leiknir
Úr leik í Boganum um liðna helgi..
Úr leik í Boganum um liðna helgi..
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Það þarf að viðhalda völlunum.
Það þarf að viðhalda völlunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nýverið skrifaði formaður knattspyrnráðs Stjörnunnar áhugaverðan pistil þar sem hann fór afar ófögrum orðum yfir eitt bæjarfélag og ástand valla þar í bæ, sama um hvort gras eða gervigras væri að ræða. Pistillinn á svo sem algjörlega rétt á sér en vandamálið er miklu stærra en það að þetta sé einungis eitt bæjarfélag sem sé að glíma við slíka vanrækslu. Vandamálið er miklu stærra.

Bæjarfélög útum allt land hafa verið að eyða stórum fjármunum í uppbyggingu gervigrasvalla um land allt svo hægt sé að nota vellina allt árið og er það vel. Það sem þau virðast hins vegar ekki gera sér grein fyrir er umstangið sem fylgir gervigrösum og það viðhald sem það þarf.

Við gerum kröfu á því að gervigrösin okkar uppfylli kröfur FIFA og eru þau annaðhvort þá Quality eða Quality PRO gervigrös. Þarna skiptir gríðarlegu máli um hvort ræðir. Á gervigrösum eru nefnilega viðmiðunarstaðlar um notkunarstundir. Þegar bæjarfélög taka þessar ákvarðanir að leggja nýja gervigrasvelli þá er það oftast svo hægt sé að nota vellina sem mest, nýtist flestum iðkendum og í sem lengstan tíma.

Það sem bæjarfulltrúar þessara bæjarfélaga gera sér ekki alltaf grein fyrir er hversu mikið (lítið) er í raun og veru hægt að nota vellina og halda að með því að leggja gervigras sé einfaldlega vandamál úr sögunni og ekkert þurfi að gera næstu 10 árin. Þetta er algjörlega rangt.

Notkunarstundir á mismunandi gervigrösum
FIFA QUALITY gras sem er það sem ég myndi nefna æfingagras er ætlast til þess að notkunarstundirnar séu ca 60 tímar á viku eða nánar tiltekið um 3000 klst notkun á ári. Framleiðendur gervigrasana miða við að eins klst notkun sé miðuð við að 22 leikmenn séu inná fullum velli í eina klukkustund.

Þetta er ekki það sem er að gerast á íslandi. Oftar en ekki er kannski æfing hjá 3.fl karla þar sem eru kannski 66 strákar inná í eina klukkustund. Þetta gerir þriggja klst notkun á þessari einu klukkustund. Þegar talað er um knattspyrnuhallirnar þá er þetta frekar algeng sjón að séu 60 plús einstaklingar inná vellinum og slitið sem því fylgir eykur því notkunarstundirnar.

Sama hvort við séum að tala um Egilshöll, Kórinn, Bogann, Fífuna eða hvaða völl sem er þá eru notkunarstundir á slíkum velli um 160-200 klukkustunda notkun á viku. Það er miðað við þann fjölda sem eru að nota völlinn sem þýðir að á einu ári eru notkunarstundir vallarins líklega á við þriggja ára notkun. Sem í raun mundi þýða að hámarksnýting á grasinu væri þrjú ár eða á við níu notkunarár sem er nánast algjört hámark á notkun á gervigrasi.

Sem dæmi þá miðar Reykjavíkurborg á að skipta út gervigrasi á 7 ára fresti og reynir að sjálfsögðu að fresta því eins lengi og mögulegt er til þess að spara kostnað. Miðað við notkunarstundir þessi 7 ár væri raunverulegur notkunaraldur grassins að minnsta kosti 14 ár og líklega í kringum 20 ár miðað við notkun þess grass.

Á Fifa Quality PRO grasi sem er gras sem ætlað er til keppnisvalla eru ennþá harðari kröfur og notkunarstundir vallarins miðaðir við 20 klukkustundir á viku sem eru innan við þrjár klukkustundir á dag. um 1000-1200 klukkustundir á ári. Aftur þá miðast hver klukkustund við 22 leikmenn inná vellinum í einu.

Oftar en ekki væru það einungis meistaraflokkar félaganna sem hefðu forgang á þá tíma og ekki er það að nýtast öllum okkar iðkendum. Sé slíkt gras á knattspyrnuhöllum samanber Bogann og notkunin miðað við það sem hún er í dag þá þyrfti að skipta um gervigras á höllinni árlega til þess að uppfylla gerðar kröfur með tilheyrandi kostnaði.

Því verra sem gervigrasið verður því fleiri og alvarlegri verða meiðslin sem eiga sér stað á vellinum. Þá kemur að næsta hluta sem bæjarfélög virðast ekki gera sér fyllilega grein fyrir að það er viðhaldið.

Viðhald gervigrasvalla
Það er alvarlega stór misskilningur að gervigras þurfi ekki viðhald. Þvert á móti þarf gervigras hellings viðhald. Nánast sama hvert er litið þegar kemur að viðhaldi gervigrass á Íslandi þá er það mjög ábótavant með örfáum undantekningum þó. Til að mynda tapast um 5 tonn að gúmmí af völlum á ári hverju sem fylla þarf aftur í. Slóða þarf vellina við hverja 40 klst notkun sem er langt í frá það sem er gert, meira að segja hjá þeim sem hugsa nokkuð vel um sína velli.

Í sumum tilfellum er nánast ekkert gert og samningar kannski við verktaka um að sjá um viðhaldið sem er engan vegin sinnt eins og þyrfti að vera gert.

Þannig vill til að félögin í landinu sem hafa þessa gervigrasvelli hafa nær öll, engin eða fá tæki til að sinna viðhaldi og sama og enginn peningur er lagður í tækjakostnað og mannafla við að sjá um gervigrasvellina. Það er gríðarlega mikilvægt að þarna verði umbætur og félögin fái peninga til tækjakaupa til þess að sinna því viðhaldi sem er mikilvægt.

Þriðja atriðið sem er gríðarlega mikilvægt hefur verið algjörlega gleymst er það er mannauðurinn við að sjá um vellina. Þau félög sem hafa starfsmann sem á að sjá um viðhald er oftar en ekki starfsmaður sem hefur litla þekkingu á hlutunum og veit hvenær, hversu oft og hvað þarf að gera á völlunum.

Það er mikilvægt að hafa starfsfólk sem hefur þekkingu á hlutunum og þetta er eitthvað sem hefur vantað. Þá er líka fátt sem hefur hvatt fólk til þess að mennta sig til slíks að vinna sem starfsmaður á knattspyrnuvöllum enda oftar en ekki aðeins boðið í hlutastarf eða fengist starfsfólk sem vinnur einungis hálft árið.

Þetta gerir það að verkum að sífellt mismunandi aðilar með takmarkaða þekkingu sinna störfunum sem er gríðarlega vont. Þá eru launamál þessara starfsmanna ekkert hvetjandi í þessum málefnum heldur. Það er mikilvægt fyrir bæjarfélögin, félögin sjálf að fjárfesta í starfsfólki sem er tilbúið til að læra og afla sér þekkingar þegar kemur að viðhaldi knattspyrnuvallanna enda er þetta miklu meiri vinna en fólk gerir sér grein fyrir.

Þegar við tölum um vandamálið með grasvellina okkar þá eru þau að hluta til sömu vandamál, alltof lítið og lélegt viðhald, starfsfólk með takmarkaða þekkingu á hvað er gert, hvenær það er gert, afhverju það er gert og auðvitað mikilvægasti punkturinn að við höfum einfaldlega ekki eytt neinum pening í að byggja upp almennilega grasvelli. Ekki einn grasvöllur hefur verið byggður upp frá grunni eftir nútímastöðlum grasvalla á sama tíma og allir gervigrasvellir sem byggðir hafa á Íslandi undanfarin tíu ár hafa fylgt viðkomandi stöðlum við uppbyggingu þeirra valla.

Heldur hafa fæst bæjarfélögin fjárfest í tækjum og tólum til að sjá um grasvellina, hvað þá að vera með hæft starfsfólk til að sjá um þá. Aftur ekki eftirsóknarvert starf fái menn ekki fulla vinnu allan ársins í kring við það. Vandamálin eru endalaus og þarf algjöra umbreytingu fyrir knattspyrnusamfélagið að eiga sér stað í öllum þessum málum sama af hvaða tegund leikflöturinn er.

Virðingafyllst
Magnús Valur Böðvarsson
Grasvallafræðingur
Vallarstjóri KR

Þetta er annar pistill höfundar um gervigras. Þann fyrri, sem skrifaður var í desember, má nálgast hér.
Athugasemdir
banner
banner
banner