Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   mið 24. apríl 2024 10:00
Brynjar Ingi Erluson
Rangnick kröfuharður í viðræðum sínum við Bayern
Mynd: Getty Images
Ralf Rangnick, þjálfari austurríska landsliðsins, er í viðræðum um að taka við þýska félaginu Bayern München af Thomas Tuchel í sumar, en hann vill fá algert frelsi í leikmannamálum.

Tuchel hefur tilkynnt að hann yfirgefi Bayern í sumar en það hefur gengið erfiðlega að finna arftaka hans.

Xabi Alonso verður áfram hjá Bayer Leverkusen á meðan Julian Nagelsmann, sem var áður hjá Bayern, ákvað að framlengja við þýska landsliðið.

Jürgen Klopp hættir með Liverpool í sumar en ætlar að taka sér frí og er hann því ekki í myndinni. Roberto De Zerbi er vissulega á blaði, en samkvæmt þýskum miðlum er Rangnick kominn lengst í ferlinu.

Austurríski miðillinn Salzburger Nachrichten greinir frá því að Rangnick vilji fá öll völd þegar það kemur að því að kaupa, lána eða selja leikmenn.

Max Eberl og Christoph Freund eru yfirmenn íþróttamála hjá Bayern og hafa séð um þessa hlið.

Þrátt fyrir þessar kröfur eru taldar ágætis líkur á að samningar náist. Rangnick og Freund eru góðir félagar eftir að hafa starfað saman hjá Salzburg. Stjórnarmaðurinn Karl-Heinz Rummenigge vill einnig fá hann, en aðalvandamálið er að Bayern þarf að greiða austurríska fótboltasambandinu bætur til að leysa þjálfarann undan samningi þar.

Rangnick á tvö ár eftir af samningi sínum og myndi væntanlega klára Evrópumótið með Austurríki áður en hann tæki við Bayern.
Athugasemdir
banner
banner