fim 24. október 2019 08:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Adam Örn: Ekki nógu sáttur með stöðu mína hjá félaginu
Adam í leik með Gornik.
Adam í leik með Gornik.
Mynd: Adam Örn Arnarson
Adam þakkar stuðningsmönnum fyrir eftir leik.
Adam þakkar stuðningsmönnum fyrir eftir leik.
Mynd: Adam Örn Arnarson
Adam Örn tæklar hér Jakub Blazcykowski, fyrrum leikmann Dortmund, í leik Gornik og Wisla Krakow.
Adam Örn tæklar hér Jakub Blazcykowski, fyrrum leikmann Dortmund, í leik Gornik og Wisla Krakow.
Mynd: Adam Örn Arnarson
Adam ásamt liðsfélögum sínum fyrir vináttuleik gegn Mexíkó árið 2017.
Adam ásamt liðsfélögum sínum fyrir vináttuleik gegn Mexíkó árið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Adam í treyju Nordsjælland.
Adam í treyju Nordsjælland.
Mynd: Nordsjælland
Adam á spjalli með Erik Hamren í janúar.
Adam á spjalli með Erik Hamren í janúar.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Hægri bakvörðurinn Adam Örn Arnarson gekk í raðir Gornik Zabrze í Póllandi í febrúar á þesu ári. Þangað kom hann á frjálsri sölu frá Álasundi í Noregi þar sem hann lék á árunum 2016-2018.

Hann er uppalinn hjá Breiðablik en hóf atvinnumennskuna árið 2013 þegar hann fór til NEC Nijmegen í Hollandi Árið 2014 fór hann svo til Nordsjælland í Danmörku þar sem hann lék til ársins 2016. Adam varð 24 ára í haust og á að baki einn A-landsleik.

Adam Örn hefur fengið takmarkað að spila á tímabilinu sem hófst í júlí og ákvað Fótbolti.net að hafa samband við Adam og fara yfir stöðu mála hjá honum.

Fenginn í byrjunarliðið en staðan breyttist fljótt
Adam var spurður um komuna til Gornik og undir hvaða kringumstæðum hann var fenginn til liðsins.

„Ég ákvað að semja við Gornik þar sem þeir voru mjög áhugasamir og töluðu eins og ég ætti að vera hægri bakvörður númer eitt hjá liðinu. Ég skrifaði undir tveim dögum fyrir fyrsta leik eftir vetrarpásu og startaði síðan fyrstu tvo leikina og gerði vel."

„Eftir það kom landsleikjahlé og liðið keypti nýjan bakvörð sem var síðan settur beint inn í liðið og ég settur á bekkinn. Það var mjög sérkennilegt frá minni hlið séð þar sem ég stóð mig vel í fyrstu tveimur leikjunum að mínu mati."


Fékk mínútur sem kantmaður
Í framhaldinu fékk Adam ekki að byrja leiki en kom oftast inn á sem varamaður. Adam var spurður hvað hefði breyst, eins og kom fram hér að ofan þá keypti liðið nýjan bakvörð en það er ekki algengt að bakvörður sé reglulega tekinn af velli fyrir varabakvörð.

„Eftir að nýi bakvörðurinn kemur reyndu þeir (þjálfararnir) að breyta mér í kantmann sem ég er ekki. Ég fékk samt alltaf mínutur og var að koma inn á sem kantmaður í flestum leikjum þannig ég var ekkert að kvarta því ég var hræddur um að þeir myndu taka illa í það og ég myndi þá ekkert fá að spila."

Meiddist í lokaleiknum sem setti strik í reikninginn
Adam meiðist í lokaleik deildarinnar en þá fékk hann loksins aftur að byrja leik. Adam meiddist eftir um 20 mínútur af leiknum gegn Korona Kielce og hefur ekki byrjað nema einn leik á þessari leiktíð. Hann lék allan leikinn í 6-0 bikarsigri.

„Ég fæ að byrja síðasta leikinn á tímabilinu þar sem hinn hægri bakvörðurinn er í banni. Ég meiðist þar á mjöðm eftir 25 min og fer því meiddur inn í fríið."

„Ég missi af öllu undirbuningstímabilinu vegna meiðslanna og kem aftur inn eftir að tímabilið er byrjað. Núna hafa nokkrir leikir liðið síðan að ég kom til baka og liðið hefur ekki verið að ná í úrslit en ég hef samt sem áður ekki fengið neina sénsa til að spila nema bikarleik á móti neðrideildar liði þar sem við unnum 6-0."


Ekki sáttur með bekkjarsetuna - Engin enska töluð
Adam hefur ekki fengið að koma inn á í deildinni eins og hann þó fékk á síðustu leiktíð. Adam er í góðu líkamlegu standi og bekkjarsetan orðin langþreytt. Þá er enskukunnátta takmörkuð hjá þjálfarateyminu sem hjálpar ekki.

„Ég hef verið í góðu standi í góðan tíma en samt sem áður hef ég ekki fengið mínútur í deildinni sem ég er ekki ánægður með. Mér finnst mjög skrítið að ég fái ekki neina sénsa þar sem liðið hefur ekki verið að gera góða hluti upp á síðkastið. Til að mynda höfum við ekki unnið leik í deildinni í síðustu sex leikjum."

„Ég er ekki nógu sáttur með mína stöðu hérna í klúbbnum. Þar sem allir 3 þjálfararnir tala líka enga ensku þá er erfitt fyrir mig að tjá mig við þá og þeir við mig."

„Ef þetta breytist ekki þá þarf ég að skoða mín mál vel og vandlega í vetur þar sem það lítur út fyrir að þjálfarinn hafi ákveðið mjög snemma að ég væri kostur númer tvö. Það sást þegar var ég settur út úr liðinu á fyrstu æfingu eftir að nýi hægri bakvörðurinn var keyptur og ekkert sagt við mig."


Ekki tilbúinn að koma heim
Ágúst Gylfason, þáverandi þjálfari Breiðabliks, sagði í viðtali við Fótbolti.net þann 1. júlí að félagið væri að skoða hvort félagið gæti fengið Adam Örn í júlíglugganum. Adam var spurður út í hvort hefði komið til greina að ganga í raðir Breiðabliks á þeim tímapunkti sem og áður en hann gekk í raðir Gornik.

„Ég æfði með Breiðablik í vetur þegar ég var að leita af nýju félagi og þeir töluðu við mig inn á milli. Það var samt aldrei nein alvara þar sem að ég var og er ekki tilbúinn að koma heim. Þannig þó svo að Breiðablik hljómi alltaf spennandi fyrir mig þá er það ekki skref sem ég er tilbúinn að taka ennþá þar sem mér finnst ég eiga eftir að sanna mig enn frekar úti."

Mun hugsa sér til hreyfings ef hlutirnir breytast ekki á næstu mánuðum
Adam var spurður út í hvort hann væri nú þegar farinn að líta í kringum sig.

„Ég hef ekki ennþá sagt við mína umboðsmenn að ég vilji fara þar sem ég er að reyna að fá mínútur og sanna mig hér þar sem ég er. En ef hlutirnir verða ennþá eins og þeir eru núna þegar það nálgast vetrarfríið mun ég eflaust fara á fullt í það. Ég er samt með samning út tímabílið þannig ég á ekki beint lokaorðið í þessum málum."

Hægri bakvarðar staðan í landsliðinu ekki fjarlægur draumur
Í janúar er vetrarfrí í Póllandi og ekki leikið í deildarkeppninni. Adam á að baki einn A-landsleik en sá leikur var árið 2017. Hann var valinn í janúarverkefni landsliðsins á þessu ári en fékk ekki að spila. Adam var spurður hvort stefnan væri sett á næsta janúarverkefni.

„Ég hef spilað fullt af leikjum í efstu deild í Danmörku, Noregi og Póllandi þannig auðvitað hugsa ég um landsliðið. Eins og er þá er hægri bakvarðar staðan ekki fjarlægur draumur ef maður er að spila. Auðvitað vil ég fá að sanna mig og stefni á sæti í landsliðshópnum."

Gornik Z. er sem stendur í 12. sæti pólsku Ekstraklasa (efstu deild) með fjórtán stig eftir tólf umferðir.

Athugasemdir
banner
banner
banner