'Á síðasta tímabili komst ég á skrið þar sem ég spilaði nokkuð marga leiki í röð þar sem ég annað hvort skoraði eða lagði upp'
'Þjálfarinn vill fá þrennt frá mér, hann vill að ég pressi, haldi uppi boltanum og skori mörk. Nokkuð einföld skilaboð'
'Ég var einnig með kosti í Skandinavíu, en mér fannst það vera of líkt því að spila á Íslandi, ég vildi prófa eitthvað allt annað'
'Ég fann alltaf fyrir miklu trausti frá Heimi Guðjónssyni, það var verið að spila upp á mína styrkleika'
Sigurður Bjartur Hallsson skrifaði fyrr í þessari viku undir tveggja og hálfs árs samning við spænska félagið AD Merida. Liðið spilar í þriðju efstu deild Spánar. Fótbolti.net ræddi við hann í hádeginu í gær, en æfingu liðsins var frestað vegna óveðurs.
„Það hefur verið mikill vindur síðustu daga, minnir mig svolítið á Grindavík, en það á að fara lægja."
„Ég er mjög ánægður að vera kominn hingað, mér líst mjög vel á félagið, það er uppbygging í gangi og metnaður hjá félaginu að gera vel. Það búa um 60 þúsund manns hérna og það eru rómverskar rústir sem ég á eftir að skoða og kynna mér betur. Ég er aðeins byrjaður að læra spænskuna, tók því miður þýskuna í menntaskóla, en hef fengið smá æfingu í spænskunni þar sem það voru nokkrir spænskumælandi þar sem ég var að kenna á Ásbrú. Það eru langflestir hjá félaginu góðir í ensku, bara nokkrir leikmenn sem eru ekki svo góðir, svo það ætti ekki að vera neitt vesen" segir Siggi.
Grindvíkingurinn er 26 ára og er kominn til Spánar eftir frábært tímabil með FH þar sem hann skoraði mörk í öllum regnboganslitum.
„Það hefur verið mikill vindur síðustu daga, minnir mig svolítið á Grindavík, en það á að fara lægja."
„Ég er mjög ánægður að vera kominn hingað, mér líst mjög vel á félagið, það er uppbygging í gangi og metnaður hjá félaginu að gera vel. Það búa um 60 þúsund manns hérna og það eru rómverskar rústir sem ég á eftir að skoða og kynna mér betur. Ég er aðeins byrjaður að læra spænskuna, tók því miður þýskuna í menntaskóla, en hef fengið smá æfingu í spænskunni þar sem það voru nokkrir spænskumælandi þar sem ég var að kenna á Ásbrú. Það eru langflestir hjá félaginu góðir í ensku, bara nokkrir leikmenn sem eru ekki svo góðir, svo það ætti ekki að vera neitt vesen" segir Siggi.
Grindvíkingurinn er 26 ára og er kominn til Spánar eftir frábært tímabil með FH þar sem hann skoraði mörk í öllum regnboganslitum.
Hæfilega stórt skref
Hann segir að félagið hafi fundið sig í gegnum gagnagrunn enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford en það eru sömu eigendur sem eiga félögin. Það er einnig tenging við Midtjylland í Danmörku og GIl Vicente í Portúgal.
„Þjálfarinn vill fá þrennt frá mér, hann vill að ég pressi, haldi uppi boltanum og skori mörk. Nokkuð einföld skilaboð," segir Siggi sem verður líklega í leikmannahópnum gegn Real Aviles á laugardag. „Ég hef ekki kynnt mér nákvæmlega hvernig fótbolti er spilaður almennt í deildinni en miðað við það sem ég hef séð af Merida þá er þetta svipaður leikstíll og ég spilaði undir stjórn Heimis. Við erum með stóra miðverði og það er mikið sent upp á framherjann og spilað út frá því. Það er leikstíll sem hentar mér."
„Mér líst vel á þetta skref, ég er meðvitaður um það að ég var ekki að fara beint í La Liga. Þannig ég lít á þetta sem gott skref, hæfilega stórt. Stefnan er sett á að komast upp um deild, en það verður enginn heimsendir ef það tekst ekki á þessu tímabili. Ég lít á fyrsta hálfa árið sem aðlögunartíma. Ég vil að sjálfsögðu koma inn og hjálpa liðinu, en markmiðið er að vera kominn vel inn í alla hluti þegar næsta tímabil byrjar."
Traust og sjálfstraust
Sigurður skoraði 16 mörk í Bestu deildinni í fyrra og endaði sem næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar. Hann segir lykilinn að því hafa verið sjálfstraustið.
„Ég fann alltaf fyrir miklu trausti frá Heimi Guðjónssyni, það var verið að spila upp á mína styrkleika. Á síðasta tímabili komst ég á skrið þar sem ég spilaði nokkuð marga leiki í röð þar sem ég annað hvort skoraði eða lagði upp. Ég mætti á þeim tíma inn í leiki með gott sjálfstraust og það sem markmið að halda því skriði áfram. Og ég myndi segja að það hafi tekist nokkuð vel."
Áður verið nálægt atvinnumennsku
Eftir tímabilið 2021 var Sigurður Bjartur orðaður við atvinnumennsku. Hann fór þá á reynslu til Króatíu.
„Það er mjög ánægjulegt að vera búinn að ná því markmiði að verða atvinnumaður erlendis, það er eitthvað sem ég hef stefnt að í talsverðan tíma. Ég hef verið nálægt því að fara út. Mér var boðinn samningur í Króatíu en mér leist ekki alveg á það skref. Þar átti ég að vera lánaður í næstefstu deild og mér fannst ekki allt skýrt í samningum svo ég ákvað að stökkva ekki á það."
Hann var þá að ganga í raðir KR eftir að hafa verið hjá uppeldisfélaginu í Grindavík. Hann var hjá KR 2022 og 2023 en færði sig í Hafnarfjörðinn skömmu fyrir mót 2024.
„Auðvitað er erfitt að yfirgefa FH, mér leið mjög vel í Hafnarfirði. Núna er breyting hjá FH, nýr þjálfari og annar leikstíll. Ég sé alveg fyrir mér að ég hefði getað komist inn í þann leikstíl, en þetta er flottur tímapunktur finnst mér að taka skrefið út."
Ánægjulegt að FH fái greitt
Það hefur verið slúðrað um að FH fái 25 milljónir króna fyrir Sigurð Bjart.
„Það er ánægjulegt að FH fái pening fyrir mig til að geta fundið mann í staðinn. Ég er þakklátur fyrir tímann minn hjá félaginu, leið vel í Kaplakrika."
Þarf að venjast hitanum
Sigurður er ekki mikið fyrir hitann, en það verður mjög heitt í Merida á sumrin. Á veturna rokkar hitastigið talsvert og fyrstu dagana hefur það verið mjög fínt að hans mati.
„C-deildin hér er svæðisskipt og flest liðin eru fyrir norðan okkur svo það er oftast kaldara í útileikjum. Mér líður ekkert frábærlega í miklum hita, en það á eftir að venjast held ég. Þessa fyrstu daga verð ég á hóteli en í næstu viku verð ég kominn með íbúð."
Fékk ekki atvinnuleyfi á Englandi
Það voru tilboð frá Englandi í Sigurð fyrr í vetur sem FH samþykkti. Ekkert varð úr því að hann færi þangað þar sem hann fékk ekki atvinnuleyfi á Englandi.
„Það var vissulega svekkjandi að fá ekki atvinnuleyfi á Englandi. Eins og ég skil þetta þá vantaði mig að hafa spilað tvo landsleiki, það hefði dugað til að ná ákveðnum punktafjölda sem þarf til að fá atvinnuleyfi. Það er einnig hægt að fá þá punkta með því að spila Evrópuleiki eða í öðrum sterkum deildum. Félögin héldu að ég myndi fá atvinnuleyfi, svo ég er ekkert svekktur út í þau. Ég er ánægður að vera kominn hingað, mér finnst þetta líka mjög spennandi verkefni."
„Ég var einnig með kosti í Skandinavíu, en mér fannst það vera of líkt því að spila á Íslandi, ég vildi prófa eitthvað allt annað. Ég fór á reynslu í Noregi en fannst það í hreinskilni ekki nægilega spennandi. Þetta er er eitthvað alveg nýtt og spennandi," segir Siggi.
Athugasemdir



