Juve reynir við Kolo Muani og Zirkzee - Mateta orðaður við Spurs - Fundað um Maguire
   fim 29. janúar 2026 10:25
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viktor Bjarki: Síminn er að springa
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Viktor Bjarki Daðason skoraði í gær sitt þriðja mark í Meistaradeildinni þegar hann kom FCK í 0-1 gegn Barcelona á Nývangi. Hann vann boltann í aðdraganda marksins, átti fullkomið hlaup inn fyrir vörn heimamanna, fékk frábæra sendingu í gegnum vörn Barcelona frá Mo Elyounoussi og kláraði framhjá Joan Garcia í marki Barcelona.

Hann varð með markinu sá yngsti til að skora Evrópumark á Nývangi, einungis 17 ára og 212 daga gamall.

„Blóðið í æðum hans er enn jafnkalt og veðrið í Danmörku í janúar," segir m.a. í umsögn um Viktor í einkunnagjöf Tipsbladet þar sem hann og tveir aðrir stóðu upp úr og fengu fjóra í einkunn. Sex er hæsta einkunn sem mögulega er hægt að fá.

Viktor var sjálfur til viðtals eftir leikinn. Hann mun líta stoltur til baka til þessa leiks.

„Auðvitað, ég er mjög glaður að hafa skorað á Nývangi 17 ára gamall. Ég vil halda áfram í Meistaradeildinni, en svona er fótboltinn og við munum koma til baka," sagði hann og brosti.

„Mig hefur dreymt um að spila á þessum leikvangi frá því ég var átta ára. Það er bilað að skora hérna, svo ég er mjög ánægður," sagði Viktor. „Ég þorði ekki að dreyma um að skora á Nývangi eftir einungis fjórar mínútur. Þetta er stórt fyrir mig. Ég efaðist aldrei um að ég væri rangstæður því mér leið eins og ég hefði tímasett hlaupið fullkomlega."

Viktor skoraði strax á fjórðu mínútu og gestirnir frá Kaupmannahöfn leiddu í leikhléi. Robert Lewandowski jafnaði leikin á 48. mínútu og skömmu síðar var Viktor tekinn af velli. Barcelona skoraði svo þrjú mörk á síðasta hálftímanum og vann 4-1 sigur. Danska liðið hefði þurft að vinna til að komast í umspilið um sæti í 16-liða úrslitum. Inni í klefa var Viktor að fá margar hamingjuóskir og síminn hans var á yfirsnúningi.

„Síminn er að springa. Ég þarf að svara flestum skilaboðunum núna, en ég veit ekki hvort ég hafi tíma," sagði Viktor. Hann sagði í viðtali eftir leikinn að bæði Real Madrid og Barcelona séu stór félög en „í mínum augum er Barca aðeins betra."

Vita allir að einn daginn mun hann fara
Jacob Neestrup, stjóri FCK, er ekki hræddur við að missa Viktor þrátt fyrir að ungstirnið hafi skorað þrjú mörk í Meistaradeildinni.

„Það er hluti af leiknum. Einn daginn mun hann færa sig til. Auðvitað verður hann ekki hér endalaust. Ég er viss um að allir viti það, og Viktor er þar á meðal. Það sést í færunum að hann er með sjálfstraust. Hann er góður að pressa. Hann þarf að bæta leik sinn þegar kemur að því að spila með bakið í markið. Það sést að hann er ungur og vantar upp á reynsluna þegar kemur að því að nýta stóra skrokkinn. En það mun koma," sagði Neestrup.
Athugasemdir
banner