Í hlaðvarpsþáttunum Dr. Football og Þungavigtinni er Böðvar Böðvarsson orðaður við ÍA. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net fundaði Böðvar með ÍA í dag og mun einnig funda með Val. Fleiri félög hafa áhuga á Bödda en óvíst er hvort hann muni funda með þeim.
Fjallað var um það á þriðjudagskvöld að Böðvar mætti fara frá FH og sagði hann við Fótbolta.net að skilaboðin frá þjálfara FH, Jóhannesi Karli Guðjónssyni, væru þau að hann mætti finna sér nýtt félag því þjálfarinn sæi ekki not fyrir vinstri bakvörðinn.
Fjallað var um það á þriðjudagskvöld að Böðvar mætti fara frá FH og sagði hann við Fótbolta.net að skilaboðin frá þjálfara FH, Jóhannesi Karli Guðjónssyni, væru þau að hann mætti finna sér nýtt félag því þjálfarinn sæi ekki not fyrir vinstri bakvörðinn.
Umræða í Dr. Football
„Fyrir mér er þetta gjörsamlega galið. Ég hefði haldið að Böddi væri verðmætasti leikmaðurinn hans Jóa Kalla akkúrat á þessari stundu. Hann er þrítugur, uppalinn í sigurhefð, nýbúið að gera hann að fyrirliða. Hann er geggjaður í klefanum og þeir eru búnir að missa sterka karaktera. Björn Daníel er hættur, Faqa er farinn og Sigurður Bjartur er farinn. Ég trúi þessu bara ekki fyrr en ég sé þetta gerast. Ef hann fer þá er besti sóknarmaðurinn farinn, besti miðjumaðurinn og besti varnarmaðurinn. Ég held hann fari ekki neitt, ég trúi þessu bara ekki, Jói Kalli fer í feitan mínus hjá stuðningsmönnum," segir Albert Brynjar Ingason. Hann lék með Böðvari hjá FH fyrri hluta tímabilsins 2014.
„Hann er að fara. Mér finnst þetta mikil áhætta hjá Jóa Kalla. Böddi er að fara á fund í dag hjá Skaganum og einhverju öðru félagi líka," segir Ragnar Bragi Sveinsson.
„Jói veit alveg hvað hann er að gera, það er gæi sem er með alltof miklar skoðanir þarna og hann ætlar bara að losa hann. Hann er bara trúr sinni sannfæringu," segir Hjörvar Hafliðason.
„Þetta er það sem er vandamálið í dag. Það er mikið af yngri þjálfurum sem nenna ekki að hafa gaura með skoðanir. Ástæðurnar sem Jói Kalli gaf Bödda á þessum fundi, ég bara skil þetta ekki. Það eru margir FH-ingar sem eru brjálaðir," segir Ragnar Bragi.
„Hans kostir henta ekki liðinu og ekki leikkerfinu sem Jói Kalli vill spila. Það er ekki bara að Jói Kalli fær mínus frá stuðningsmönnum, heldur líka hjá leikmönnum líka. Böddi er stór karakter í klefanum, ég bara trúi þessu ekki fyrr en ég sé þetta gerast, ég held hann verði áfram. Böddi á bara að segja nei, hann á tvö ár eftir af samningi," segir Albert.
„Ég er ekki alveg að átta mig á þessu og líka bara fleiru sem er að gerast hjá FH. Það er verið að leita að liðum fyrir Kjartan Kára - FH tilbúið að selja hann, Úlfur (Ágúst) er mögulega til sölu og fleiri. Það er einhvern veginn allt til sölu. Það er verið að safna fyrir einhverju, en fyrir hverju ætlaru að safna ef það eru engir góðir leikmenn eftir?" veltir Ragnar Bragi fyrir sér.
„Bragi Karl er farinn til Njarðvíkur heyri ég. Bjarni Guðjón má fara og Birkir Valur má fara skilst mér. Það er einhver hreinsun í gangi," segir Albert.
Umræða í Þungavigtinni
„Sagan er sú að Böddi sé ekki í nógu góðu standi, ég blæs nú á það að leikmaður sé rúmlega þrítugur sé ekki í toppstandi í lok janúar. Breiðablik er sem dæmi ekki byrjað að æfa og nægur tími til að laga það. Böðvar er FH-ingur með FH hjarta, ætlaði að enda ferilinn þarna. Hann á tvö ár eftir af samningi, ég hefði tekið Aron Jó á þetta og verið grjótharður, látið þá borga upp samninginn ef hann á að fara. Þetta er köld vatnsgusa framan í hann. Það er nýbúið að gera hann að fyrirliða og hann stóð sig mjög vel síðasta sumar. Á hvaða vegferð er FH? Það er að verða alltaf meiri og meiri ráðgáta," segir Kristján Óli Sigurðsson.
„Þetta er heldur betur ekki að fara vel í hörðustu FH-inga. Meira að segja ég, sem er ekki vitund FH-ingur, þetta sló mig," segir Ingimar Helgi Finnsson.
„Fyrirliðinn þeirra, Björn Daníel, er farinn og Böddi átti að taka við. Böddi á nóg eftir og mér fannst síðasta sumar það besta hjá honum frá því að hann kom heim. Hann var mjög öflugur sóknarlega, með góðar spyrnur. Þetta kom mjög á óvart. Eins og Davíð sagði í viðtali þá þarf líka að vera með eldri leikmenn í liðinu. Það eru sex menn farnir úr liðinu sem spilaði lokaleikinn á síðasta tímabili," segir Kristján Óli.
Hann bendir á að hjá FH sé efnilegur vinstri bakvörður, Ísak Atli Atlason, yngri bróðir Patriks Snæs Atlasonar. „Hann og Böddi hafa verið að skipta á milli sín mínútum í vinstri bakverðinum."
Kristján Óli segir þá að Birkir Valur Jónsson verði næstur til að fá þau skilaboð að hann megi fara. Fótbolti.net hefur heyrt slúðrað um að Birkir Valur gæti farið aftur í HK en hann kom þaðan eftir tímabilið 2024.
„Ég hef heyrt Bödda orðaðan við Skagann, gætu þeir farið í þriggja hafsenta kerfi með Bödda eða Johannes Vall með annan sem vinstri hafsent og hinn í vængbakverði," segir Kristján Óli.
Nikótín bannað á æfingasvæðinu
Í Þungavigtinni var einnig sagt frá því að Jóhannes Karl væri búinn að banna nikótínpúða í Kaplakrika.
„Þú verður að velja slagina, þú ert að koma inn, það er verið að breyta kúltúrnum, það er þetta GoalUnit og allt þetta dót. Þetta er bara einhver slagur sem þú átt ekki að vera taka. Það er örugglega ekki gott til lengdar fyrir íþróttamenn að nota svona púða til lengdar. En þetta er ekki breytan sem er að fara breyta öllu. Þetta er farið að minna mig svolítið á þegar Óli Kristjáns kom inn í FH 2018. Þá var ennþá hellingur af gaurum í liðinu sem höfðu unnið alla þessa titla. Maður hefur heyrt því fleygt fram að Óli hafi ætlað að breyta öllu og talað niður það sem búið var að gera, þó að það hafi kannski ekki verið áætlunin. Á að breyta öllu, umbylta öllu á núll einni? Ég veit það ekki," segir Ingimar Helgi.
„Það er heldur betur mikilvægt fyrir FH að byrja mótið vel. Það er alvöru pressa," segir Kristján Óli.
Fótbolti.net hefur reynt að ná á Davíð Þór Viðarssyni, yfirmanni fótboltamála hjá FH, og Jóhannesi Karli Guðjónssyni, þjálfara FH, en án árangurs. Böðvar vildi ekki veita viðtal að svo stöddu.
Athugasemdir



