fös 25. febrúar 2022 19:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Þarf ekki hrós fyrir að vera kona árið 2022
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Hulda Mýrdal (til vinstri)
Hulda Mýrdal (til vinstri)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Er ekki orðið tímabært að varpa sviðsljósinu yfir á þau gæði sem einstaklingar búa yfir?

Umræðunni hefur verið snúið upp í að það sé kominn tími á konu í formannsstól KSÍ.

Jú, vissulega er kominn tími á konu í sögulegu samhengi. Það er bara staðreynd út frá tölfræðinni. En að segja að Vanda sé næsti formaður KSÍ því hún er kona er galið. Það er bara fokkjú putti á allt sem hún hefur gert.

Konur vilja ekki hrós og þurfa ekki hrós fyrir það eitt að vera konur. Það er bara mjög algengt að vera kona og það eru fullt af konum sem gera góða hluti. Þær gera ekki góða hluti af því að þær eru konur. Þær gera góða hluti því þær búa yfir hæfileikum.

Bandarískar landsliðskonur í fótbolta hafa talað um þennan vanda í mörg ár. Þó svo að þær búi yfir gríðarlegum gæðum í fótbolta þá talar fólk alltaf fyrst um að þær séu konur. Punktur.

Þegar þú hefur náð árangri, hefur lagt hart að þér alla ævi og býrð yfir hæfileikum þá ætti að vera eðlilegt að það séu þeir þættir sem þér er hrósað fyrir. Það eru hæfileikarnir sem eiga að vera í sviðsljósinu.

Þegar Vanda Sigurgeirsdóttir býður sig fram til formanns KSÍ - þá er hún fyrst og fremst leiðtogi, úrræðagóð og með gífurlega reynslu á öllum sviðum knattspyrnunnar. Hún er brautryðjandi á mörgum sviðum knattspyrnunnar og algjör negla.

Vanda er vissulega kona og er brautryðjandi að því leytinu til að vera kona í þessari stöðu. Það má hrósa henni fyrir það og að vera fyrirmynd fyrir aðrar konur en það er allt önnur umræða. Það er ekki það sem málið snýst um í dag.

Í dag snýst málið um mannkosti, knattspyrnuþekkingu og leiðtogahæfni burtséð frá kyni.

Ef þú ert ein/n af þeim sem föst/fastur í því að það sé kona að bjóða sig fram og kemst ekki lengra en það þá mæli ég með því að þú ögrir þér aðeins og prófir að hugsa um Vöndu Sigurgeirsdóttur sem karl með þessa reynslu og knattspyrnuþekkingu. Sjokkerandi ekki satt?

Það er kominn tími á að við horfum á einstaklinga út frá þeim jákvæðu eiginleikum sem þeir búa yfir og velja fólk sem gerir samfélagið betra.

Það er árið 2022.

Hulda Mýrdal Gunnarsdóttir
Annar eigandi Heimavallarins
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner