Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mán 25. apríl 2016 13:00
Elvar Geir Magnússon
Spá Fótbolta.net - 1. sæti: FH
Atli Guðnason er lykilmaður hjá FH.
Atli Guðnason er lykilmaður hjá FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Brynjar Ásgeir Guðmundsson, Þórarinn Ingi Valdimarsson og Emil Pálsson.
Brynjar Ásgeir Guðmundsson, Þórarinn Ingi Valdimarsson og Emil Pálsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Gunnar Nielsen er kominn í markið.
Gunnar Nielsen er kominn í markið.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sóknarmaðurinn Steven Lennon.
Sóknarmaðurinn Steven Lennon.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Nú lokum við spá Fótbolta.net fyrir Pepsi-deildina en Íslandsmeistarar FH verja titil sinn ef spáin gengur eftir. Fréttaritarar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. FH er spáð efsta sætinu.

Spáin:
1. FH 96 stig
2. Stjarnan 81 stig
3. KR 75 stig
4. Breiðablik 70 stig
5. Valur 64 stig
6. Víkingur R. 61 stig
7. Fylkir 44 stig
8. ÍBV 42 stig
9. Fjölnir 27 stig
10. ÍA 26 stig
11. Víkingur Ólafsvík 24 stig
12. Þróttur 14 stig

Um liðið: FH er svo sannarlega stórveldi í íslenska boltanum og sigursælasta lið landsins síðustu ár. Liðið hampaði Íslandsmeistaratitlinum í fyrra eftir að hafa mistekist það ætlunarverk tvö ár á undan. Krafan í Hafnarfirðinum er alltaf að taka Íslandsmeistaratitilinn en félagið setur stefnuna enn hærra og dreymir um riðlakeppni í Evrópu. Það er mjög erfitt að veðja gegn því að FH endi aftur á toppnum þetta sumarið.

Þjálfari - Heimir Guðjónsson: Heimir hefur stýrt FH frá því haustið 2007 en hann var áður leikmaður og aðstoðarþjálfari hjá félaginu. Ferilskráin talar sínu máli og ljóst að þarna fer einn allra hæfasti þjálfari landsins enda með fullan verðlaunaskáp. Er með teymi kringum sig sem hann hefur unnið lengi með, nær vel til leikmanna og er með öll atriði á hreinu, stór og smá.

Styrkleikar: Hvar á maður að byrja? Eins og síðustu ár er mikil breidd í leikmannahópnum og margir gríðarlega öflugir leikmenn. Þjálfarateymið, umgjörðin, metnaðurinn og allt til staðar í Kaplakrikanum. Ef FH hittir á sinn besta leik á ekkert lið í deildinni möguleika gegn þeim. Þrátt fyrir að FH hafi styrkt sig með öflugum leikmönnum er í heildina stöðugleiki í liðinu og allir þekkja sín hlutverk 100%.

Veikleikar: Það er enginn augljós veikleiki hjá FH. Liðið hefur oft verið ryðgað í færasköpun í leikjum í vetur en FH-liðið smellur venjulega alveg saman um leið og alvaran hefst. Liðið hefur misst Pétur Viðarsson og Jón Ragnar Jónsson sem eru sterkir karakterar.

Lykilmenn: Davíð Þór Viðarsson og Atli Guðnason. Davíð er fyrirliði FH, algjör lykilmaður og akkeri á miðjunni. Það gætu skapast vandræði ef hann vantar. Einn allra besti leikmaður síðasta árs. Atli hefur verið í hópi bestu leikmanna efstu deildar í mörg ár og er maður stóru leikjanna. Ótrúlega drjúgur í að skapa færi og mörk. Leikmaður sem andstæðingurinn verður alltaf að hafa augu á.

Gaman að fylgjast með: Emil Pálsson var valinn leikmaður ársins í fyrra. Hann byrjaði tímabilið á láni hjá Fjölni en kom til baka fullur sjálfstrausts um mitt mót og var hrikalega öflugur fyrir FH seinni hluta tímabils. Leikmaður sem hefur sprungið út og ef hann heldur uppteknum hætti fer hann út í atvinnumennskuna bráðlega.

Spurningamerkið: Færeyski landsliðsmaðurinn Gunnar Nielsen er kominn í markið og það er pressa á honum að sýna að FH sé með þessu að bæta þessa stöðu. Gunnar hefur verið að glíma við meiðsli í þessum mánuði en hann á að hjálpa FH að taka næsta skref og komast enn nær riðlakeppni í Evrópu.

Völlurinn: Kaplakrikavöllur er glæsilegur leikvangur sem alltaf er gaman að heimsækja. Miklar framkvæmdir hafa verið á svæðinu og FH-ingar eru alltaf að vinna í að bæta og breyta. Það er nóg af sætum og stórleikir njóta sín vel í Hafnarfirðinum.



Stuðningsmaðurinn segir - Anton Ingi Leifsson
„Pepsi-deildin að byrja og það eru geggjaðar fréttir. Við FH-ingar erum rosalega gíraðir og allir spekingar landsins hafa keppst við að setja alla pressuna á Fimleikafélagið. Stefnan er klárlega að verja titilinn frá því í fyrra og smá bikarævintýri myndi ekki særa neinn FH-ing. Evrópukeppnin er svo villtur draumur sem vonandi rætist eitthvað úr. "

„Ég er virkilega ánægður með hópinn sem er samansettur af svo miklum miklum karakterum og fagmönnum, en einnig er þjálfarateymið einstakt. Gunnar virkar rosalega vel á mig í markinu og Beggi er að koma vel inn í varnarleikinn. Stuðningsmennirnir frábæru eru spenntir og hef ég fulla trú á því að Pepsi-bikarinn verði áfram í höndum stærsta og besta félags á Íslandi."

Sjá einnig:
Líklegt byrjunarlið FH
Heimir Guðjóns: Ekkert til í þessu sem Óli Jó sagði
Davíð Þór: Enginn göngutúr í garðinum

Komnir:
Bergsveinn Ólafsson frá Fjölni
Gunnar Nielsen frá Stjörnunni
Sonni Ragnar Nattestad frá Danmörku

Farnir:
Böðvar Böðvarsson til Midtjylland á láni
Jón Ragnar Jónsson hættur
Kristján Pétur Þórarinsson í Leikni R. á láni
Pétur Viðarsson á leið í nám erlendis
Róbert Örn Óskarsson í Víking R.

Leikmenn FH sumarið 2016:
Gunnar Nielsen - 1
Emil Stefánsson - 2
Sam Tillen - 4
Bergsveinn Ólafsson - 5
Sam Hewson - 6
Steven Lennon - 7
Emil Pálsson - 8
Þórarinn Ingi Valdimarsson - 9
Davíð Þór Viðarsson - 10
Atli Guðnason - 11
Kristján Finnbogi Finnbogason - 12
Bjarni Þór Viðarsson - 13
Grétar Snær Gunnarsson - 14
Guðmann Þórisson - 15
Sonni Ragnar Nattestad - 16
Atli Viðar Björnsson - 17
Kristján Flóki Finnbogason - 18
Kassim Doumbia - 20
Jeremy Serwy - 22
Brynjar Ásgeir Guðmundsson - 23
Daði Arnarsson - 24
Viktor Helgi Benediktsson- 25
Jonathan Hendrickx - 26
Hörður Ingi Gunnarsson - 27
Baldur Búi Heimisson - 28

Leikir FH 2016:
1. maí Þróttur - FH
8. maí FH - ÍA
12. maí KR - FH
16. maí FH - Fjölnir
23. maí Stjarnan - FH
30. maí FH - Víkingur Ó.
5. júní Breiðablik - FH
16. júní Valur - FH
24. júní FH - Fylkir
9. júlí FH - Víkingur R.
16. júlí ÍBV - FH
24. júlí FH - Þróttur
3. ágúst ÍA - FH
8. ágúst FH - KR
15. ágúst Fjölnir - FH
22. ágúst FH - Stjarnan
28. ágúst Víkingur Ó. - FH
11. sept FH - Breiðablik
15. sept Fylkir - FH
18. sept FH - Valur
25. sept Víkingur R. - FH
1. okt FH - ÍBV

Spámennirnir: Arnar Daði Arnarsson, Alexander Freyr Einarsson, Elvar Geir Magnússon, Gunnar Birgisson, Hafliði Breiðfjörð, Arnar Geir Halldórsson, Jóhann Ingi Hafþórsson, Magnús Már Einarsson og Magnús Þór Jónsson.
Athugasemdir
banner
banner