Sancho, Van de Beek, Greenwood, Soule, Todibo, Müller og fleiri góðir koma við sögu í slúðri dagsins
banner
   mán 25. september 2023 21:30
Ívan Guðjón Baldursson
O'Riley getur valið á milli Danmerkur og Noregs
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Danska landsliðið er að íhuga að bjóða miðjumanninum Matthew Sean O'Riley, betur þekktur sem Matt O'Riley, tækifæri til að spila fyrir A-landsliðið. 


O'Riley er 22 ára gamall og hefur fest sig í sessi sem lykilmaður á miðjunni hjá skoska stórveldinu Celtic.

O'Riley á leiki að baki fyrir unglingalandslið Danmerkur og Englands en er einnig gjaldgengur til að spila fyrir Noreg. Norska knattspyrnusambandið er talið vera búið að setja sig í samband við leikmanninn en hann er sagður vera með danska landsliðið í forgangi.

Hann á fjóra leiki að baki fyrir U16 og U18 landslið Englands og lék svo fjóra leiki með U21 landsliði Dana í fyrra.

O'Riley þótti vera meðal bestu leikmanna vallarins í 2-0 tapi Celtic gegn Feyenoord í fyrstu umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar í síðustu viku og hefur verið öflugur á upphafi nýs tímabils í Skotlandi.

Hann er búinn að skora fjögur mörk og gefa tvær stoðsendingar í öllum keppnum það sem af er tímabils og kemur sterklega til greina fyrir næsta landsilðshóp Dana sem verður valinn fyrir landsleikjahléð í október.

O'Riley myndi berjast við Christian Eriksen, Pierre-Emile Höjbjerg, Phillip Billing, Thomas Delaney, Mathias Jensen og Christian Norgaard um sæti á sterkri miðju danska landsliðsins.

Hjá Noregi er samkeppnin aðeins vægari þó að Martin Ödegaard, Sander Berge, Morten Thorsby, Kristian Thorstvedt og Fredrik Aursnes séu vanalega í hóp.

O'Riley er fæddur á Englandi þar sem hann ólst upp innan herbúða Fulham og kom við sögu í ellefu leikjum fyrir félagið áður en hann skipti til MK Dons og þaðan svo til Celtic.


Athugasemdir
banner
banner
banner