Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   fim 25. nóvember 2021 17:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Hafði mjög gaman af sögu Hjörvars - „Höfum ekki neitt heyrt í þeim"
Kolbeinn Sigþórsson
Kolbeinn Sigþórsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á sunnudag orðaði Hjörvar Hafliðason þá Jón Daða Böðvarsson og Kolbein Sigþórsson við Víking. Jón Daði er leikmaður Millwall á Englandi og Kolbeinn er að renna út á samningi sínum hjá Gautaborg í Svíþjóð.

„Ég sel þetta ekki dýrara en ég keypti þetta, Kolbeinn Sigþórsson og Jón Daði Böðvarsson hafa áhuga á að taka slaginn í Meistaradeildinni með Víkingum,“ sagði Hjörvar í Dr. Football á sunnudag.

Fótbolti.net bar þessi orð Hjörvars undir Arnar Gunnlaugsson, þjálfara Víkings.

„Við höfum ekki neitt heyrt í þeim, ég hafði mjög gaman af þessari sögu. Það getur vel verið að einhverjir stuðningsmenn, einhver frændi eða eitthvað hafi heyrt eitthvað en ég persónulega hef ekkert heyrt, ekki neitt," sagði Arnar og hló.

Kolbeinn er uppalinn Víkingur en hann lék upp í gegnum flesta yngri flokkana í Víkinni. Hann fór í HK árið 2006 og í kjölfarið til AZ í Hollandi og hefur spilað erlendis síðan.

Jón Daði er 29 ára sóknarmaður frá Selfossi sem leikið hefur erlendis frá árinu 2013. Jón Daði á baki 60 A-landsleiki og Kolbeinn, sem er ári eldri, á 64 leiki að baki.
Athugasemdir
banner
banner