lau 26. september 2020 22:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þurfum að bæta líkamlega þáttinn og gera meiri kröfur taktískt
Arnar Hallsson.
Arnar Hallsson.
Mynd: Hulda Margrét
Úr leik KR og Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar.
Úr leik KR og Celtic í forkeppni Meistaradeildarinnar.
Mynd: Getty Images
Arnar Hallsson, þjálfari og leikgreinandi, var gestur í útvarpsþættinum Fótbolta.net í dag.

Hann ræddi um leikstíla Breiðabliks og Víkings sem hafa verið í umræðunni. Hann ræddi einnig um árangur íslenskra félaga í Evrópukeppnum.

Ekkert íslenskt félag vann leik í Evrópukeppni á þessu ári. Ísland hefur síðustu árin verið með fjögur Evrópusæti en þeim mun fækka um eitt frá og með leiktíðinni 2022/23 eftir slakan árangur í Evrópukeppnum undanfarin ár.

Á meðan Færeyjar eru einum leik frá því að eignast lið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar, þá er Ísland í vandræðum. Arnar fékk spurninguna: 'Hvað er að?'

„Ég held að Arnar Viðars hafi hitt naglann á höfuðið að hluta til með það að formið á leikmönnum hér, það er ekki nógu gott. Til þess að þú sért að keppa í Evrópukeppni, þá þurfa leikmenn að vera meira 'fit'. Það þýðir ekki endilega að það sé æft mikið meira, það eru aðeins meiri gæði."

„Peningarnir sem hafa verið í umferð hérna hafa verið mjög miklir finnst mér. Mér finnst krafan á þjálfara og leikmenn, hún hefði átt að aukast í samræmi við það og ég held að það hafi gert það í mjög mörgum liðum, en það er einhvern veginn svona innbygð værukærð í þetta: 'Ef við komumst í Evrópu, þá erum við 'golden' og þá hafa það allir gott'. Það vantaði metnaðarhlutann í þessu, við ætlum lengra og eitthvað plan til að gera það."

„Nú verður ábyggilega einhver móðgaður út í mig en mér fannst það galið að Breiðablik skyldi fara með þessa nálgun inn í þennan leik (gegn Rosenborg) með þessa fjármuni undir. Þú ert á einhvern hátt fulltrúi íslenska fótboltans og þú ert fulltrúi félagsins í þessu. Þessi peningar skipta rosalega miklu máli og þú verður að haga þér í samræmi við þær aðstæður."

„Mér fannst Víkingarnir nálgast sinn leik mjög praktískt og einstaklingsmistök valda því að þeir fara ekki áfram, Ingvar átti bara að verja þennan helvítis bolta. KR-ingarnir tapa 6-0 fyrir Celtic, það var aldrei raunhæft að þeir myndu vinna en það var raunhæft að gera aðeins betur. Það sem eftir fylgdi var algjör skita."

„Ég held að þetta sé annars vegar þessi líkamlegi þáttur og hins vegar það þjálfararnir og leikmennirnir, við þurfum að gera meiri kröfur til okkar taktískt til þess að geta unnið þessa leiki í Evrópukeppni því þetta er keppni í þolinmæði. Þetta er keppni í að bíða eftir þessum 2-3 opnunum sem þú færð, halda einbeitingu, vinna eins og rotta og þá ertu búinn að vinna þér inn þá stöðu að geta unnið leikinn. Að fara 'gung ho' út í þetta, það er algerlega dauðadæmt."

Hlusta má á útvarpsþáttinn í heild sinni hér að neðan en þar ræðir Arnar nánar um hvað það hversu mikilvægt það er að vinna í líkamlegri þjálfun leikmanna.

Sjá einnig:
Arnar Viðars: Evrópuúrslit spark í rassinn - Bæta þarf líkamlegan þátt leikmanna
Útvarpsþátturinn - Leikstílar í Pepsi Max og óverðskuldaður sigur Man Utd
Athugasemdir
banner